Martin Hermannsson meiddist illa á hnéi í gær er lið hans Valencia tapaði oddaleik í átta liða úrslitum ACB deildarinnar á Spáni gegn Baskonia.

Ekki var ljóst í fyrstu hversu alvarleg meiðsli Martins voru, en nú hefur verið gefið út að um krossbandsslit hafi verið að ræða. Tímabil Valencia endaði með tapinu í gær og mun Martin því ekki missa af neinum leikjum hjá þeim á yfirstandandi tímabili, en líklegt verður að þykja að hann missi bæði af landsleikjum Íslands í undankeppni HM nú í sumar, sem og góðum hluta af næsta tímabili félagsliðs síns.