Mario Matasovic hefur framlengt samningi sínum við Njarðvík í Subway deild karla. Staðfestir félagið þetta með fréttatilkynningu fyrr í dag.

Mario hefur verið í Njarðvík síðan 2018-19 tímabilið, en á því síðasta skilaði hann 15 stigum og 8 fráköstum að meðaltali í leik fyrir félagið, sem bæði varð bikarmeistari í byrjun tímabils og vann deildarmeistaratitil Subway deildarinnar þetta árið.

„Tilfinningin er góð og þetta er rökrétt áframhald á mínum ferli. Tímabilið í ár var betra en þar á undan og nú er markmiðið að fara lengra og berjast um öll þau verðlaun sem eru í boði. Mér líður eins og þetta sé heimili mitt eftir þessi fjögur ár sem ég hef verið hér síðan ég kom úr háskóla,“ sagði Mario í samtali við UMFN.is þegar hann skrifaði undir nýja samninginn.

Samkvæmt tilkynningu félagsins mun nýr samningur Mario vera til næstu þriggja ára og mun hann því leika með félaginu út 2024-25 tímabilið.