Kjartan Atli tekur við Álftanesi “Vona að við getum glatt fólkið okkar með fallegum körfubolta”

Kjartan Atli Kjartansson hefur verið ráðinn þjálfari Álftaness í fyrstu deild karla. Tekur hann við starfinu af Hrafni Kristjánssyni, sem sagði starfi sínu lausu eftir lok síðasta tímabils.

Álftanes fór alla leiðina í úrslitaeinvígi fyrstu deildarinnar á síðasta tímabili, þar sem að liðið laut í lægra haldi gegn Hetti.

Kjartan Atli er bæði fyrrum leikmaður og þjálfari, sem kannski þekktastur hefur verið fyrir þætti sína Körfuboltakvöld á Stöð 2 Sport á síðustu árum, en hann er að upplagi frá Álftanesi.

Tilkynning:

Körfuknattleiksdeild Ungmennafélags Álftaness hefur samið við Kjartan Atla Kjartansson sem þjálfara meistaraflokks karla fyrir næsta leiktímabil. Kjartan Atli er uppalinn Álftnesingur og spilaði á árum áður sem leikmaður fyrir Hauka, Hamar og Stjörnuna, þar sem hann varð bikarmeistari. Þá er hann einnig landsþekktur fjölmiðlamaður og þáttarstjórnandi körfuboltakvöldsins. Kjartan hefur um árabil þjálfað yngri flokka hjá Stjörnunni.
Kjartan Atli hefur sterka tengingu við körfuknattleikslið Álftaness. Árið 2001 skráði hann fyrsta lið félagsins í Íslandsmót á vegum KKÍ, lið 12 ára drengja. Sama tímabil hélt hann utan um æfingar fyrir grunnskólabörn á nesinu.
Kjartan Atli lék með félaginu eftir að hann hætti leik í efstu deild. Hann fór með félaginu upp úr þriðju og annarri deild og var fyrirliði liðsins á þeim tíma.
Huginn Freyr Þorsteinsson formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness: „Við gætum ekki verið ánægðari með þessa ráðningu. Kjartan Atli er heimamaður og hefur fylgst með og komið að uppbyggingu körfuboltans á Álftanesi. Körfuboltinn á Álftanesi er á mikilli siglingu og mun ráðning Kjartans efla og stykja starfið hér.“
Kjartan Atli Kjartansson nýr þjálfari Álftaness: „Að vera kominn aftur á æskuslóðir gleður mig virkilega. Ég er spenntur fyrir komandi tímabili. Á Álftanesi er metnaðurinn mikill, stjórnin til fyrirmyndar og leikmannahópurinn sterkur. Ég vonast til þess að okkur takist í sameiningu að halda ævintýrinu áfram, taka fleiri skref í rétta átt. Ég ólst upp í Sjávargötunni og veit hversu miklu máli það skiptir fyrir Álftnesinga að hafa sterk íþróttalið í byggðarlaginu. Ég vona að við getum glatt fólkið okkar með fallegum körfubolta.”