Leikmaður íslenska landsliðsins og Breiðabliks í Subway deild kvenna Isabella Ósk Sigurðardóttir er gengin til liðs við South Adelaide Panthers í Ástralíu. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.

Isabella átti virkilega gott tímabil fyrir Blika síðasta vetur, þar sem liðið fór meðal annars í úrslit bikarkeppninnar og hún skilaði 14 stigum, 14 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik, en hún var framlagshæsti íslenski leikmaður deildarinnar á tímabilinu.

South Adelaide eru sem stendur í 2. sæti miðdeild áströlsku Nbl1 deildarinnar með sex sigra og eitt tap það sem af er tímabili, en næsti leikur þeirra er þann 28. maí gegn Sturt Sabres.