Collin Pryor hefur á nýjan leik samið við ÍR í Subway deild karla og mun hann leika með þeim á næsta tímabili.

Collin var ÍR gríðarlega mikilvægur á yfirstandandi tímabili, skilaði 14 stigum, 6 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik, en liðið rétt missti af sæti í úrslitakeppninni. Næsta tímabil mun vera hans þriðja með ÍR, en áður hefur hann einnig leikið fyrir FSU, Fjölni og Stjörnuna.

Tilkynning:

Áfram halda tíðindin að streyma úr herbúðum karlaliðsins því nú er staðfest að Collin Pryor spilar í bláu og hvítu í Breiðholtinu á komandi keppnistímabili. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi Collin, hvort heldur innan vallar eða utan, enda stríðsmaður mikill og öflugur félagsmaður. Næsta keppnistímabil verður hans fjórða i Hellinum.
Ísak Máni Wíum hafði þetta um tíðindi dagsins að segja:
,,Ég er afskaplega ánægður með að Collin taki slaginn. Fyrir mig sem þjálfara er nærvera hans sérstaklega mikilvæg enda er hann bæði elsti og reynslumesti leikmaður liðsins. Við náum vel saman, við treystum hvorum öðrum og ræðum mikið saman. Collin mun án efa spila stórt hlutverk á komandi tímabili og vænti ég þess að hann eigi sitt besta ár körfulega séð.”
Við ÍR-ingar fögnum þessum fréttum og hlökkum til að sjá Colllin á vellinum í Mjóddinni í vetur. Wíum þjálfari er að púsla liði sínu saman og mà vænta frekari tíðinda af því púsluspili á næstunni.