Valur lagði Þór í kvöl í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild karla. Með sigrinum tryggði Valur sig áfram í úrslitaeinvígi, þar sem þeir munu mæta sigurvegara einvígis Njarðvíkur og Tindastóls, en Íslandsmeistarar Þórs eru komnir í sumarfrí.

Mun þetta vera í fyrsta skipti í 30 ár sem Valur kemst í úrslitaeinvígið, en árið 1992 töpuðu þeir fyrir Keflavík í úrslitum 3-2. Fari svo að þeir vinni titilinn verður það í fyrsta skipti síðan að úrslitakeppnin var sett á sem að þeir gera það. Fyrir það vann Valur þó í tvígang titilinn, árið 1980 og 1983.

Fyrir leik

Íslandsmeistarar Þórs tóku á móti Val í kvöld í Þorlákshöfn í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Subway deildar karla. Fyrir leik kvöldsins var Valur með tvo sigra á móti engum Þórsara og gátu þeir því sópað Íslandsmeisturunum í sumarfrí með sigri.

Gangur leiks

Valur byrjaði leik kvöldsins mun betur en heimamenn. Ná að byggja sér upp þægilega 10 stiga forystu á upphafsmínútum leiksins, en þegar 3 mínútur eru eftir af fyrsta leikhlutanum er staðan 11-21. Gestirnir ná að halda í þá forystu út fjórðunginn, sem endar 15-25. Áhyggjuefni fyrir heimamenn var að lykilleikmaður þeirra Daniel Mortensen fékk tvær villur í fyrsta leikhlutanum og þurfti því að hvíla, en hann hefur verið afar mikilvægur liðinu á tímabilinu.

Undir lok fyrri hálfleiksins láta gestirnir kné fylgja kviði. Skotin halda áfram að detta fyrir þá í öðrum leikhlutanum og þá ná þeir stoppum á hinum enda vallarins. Vinna fjórðunginn 13-29 og eru því 26 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 28-54. Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Ronaldas Rutkauskas með 9 stig á meðan að Kári Jónsson var frábær fyrir Val með 17 stig.

Valur kemur forystu sinni mest í 30 stig í upphafi seinni hálfleiksins. Heimamenn virðast ekki ná að koma neinum vörnum við og eru með afleita nýtingu úr djúpinu, aðeins 4 af 31 fyrstu þrjá leikhluta leiksins eða 12%. Munurinn 24 stig fyrir lokaleikhlutann, 45-69.

Heimamenn gera ansi vel í upphafi fjórða leikhlutans. Ná að minnka forystu Vals niður í 15 stig á fyrstu þremur mínútum fjórðungsins, 55-70. Nær komast þeir þó ekki á þessum lokakafla. Niðurstaðan að lokum 17 stiga sigur Vals, 65-82.

Atkvæðamestir

Fyrir heimamenn var Daniel Mortensen atkvæðamestur með 15 stig, 11 fráköst, 7 stoðsendingar og Tómas Valur Þrastarson bætti við 13 stigum.

Kári Jónsson var atkvæðamestur í liði Vals með 25 stig og 5 stoðsendingar. Þá bætti Jacob Calloway við 14 stigum og 11 fráköstum.

Hvað svo?

Valur þarf nú að bíða niðurstöðu undanúrslitaeinvígis Njarðvíkur og Tindastóls, en staðan þar er 2-0 og geta Stólarnir með sigri annað kvöld tryggt sig áfram í úrslitaeinvígið.

Tölfræði leiks