Tindastóll lagði Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild karla. Stólarnir því komnir með yfirhöndina í einvíginu 10, en sigra þarf þrjá leiki til þess að tryggja sig í úrslitin.

Fyrir leik

Í átta liða úrslitum vann Njarðvík lið KR nokkuð örugglega 3-0 á meðan að Tindastóll hafði betur gegn Keflavík 3-2. Liðin mættust í tvígang í vetur og skiptu með sér sigrum. Tindastóll vann með 9 stigum í Ljónagryfjunni þann 5. nóvember, en Njarðvík leik liðanna í Síkinu með 12 stigum þann 10. febrúar.

Gangur leiks

Leikurinn var í nokkru jafnvægi í upphafi, en um miðjan fyrsta leikhluta sigla heimamenn framúr og eru með 9 stiga forystu að fjórðungnum loknum, 25-16. Mikið fór fyrir Fotios Lampropoulos á þessum upphafsmínútum, en hann var með 8 stig og 6 fráköst í fyrsta leikhlutanum.

Heimamenn ná áfram að vera skrefinu á undan í byrjun annars leikhlutans og ná mest 10 stiga forystu í leikhlutanum. Stólarnir fara þó að fá skotin sín til þess að detta undir lok fjórðungsins og ná að jafna leikinn undir lok hans í stöðunni 41-41, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 43-41.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Fotios Lampropoulos með 15 stig á meðan að Sigtryggur Arnar Björnsson var kominn með 13 stig fyrir Tindastól.

Ekki munar miklu á liðunum í upphafi seinni hálfleiksins. Heimamenn ná þó lengst af í þriðja leikhlutanum að vera einni til tveimur körfum fyrir framan, en þegar að fjórðungurinn er á enda er munurinn tvö stig, 62-60. Hvorugt lið var í neinum sérstökum villuvandræðum fyrir lokaleikhlutann, en Hannes Ingi Másson, Sigtryggur Arnar Björnsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru þó allir komnir með þrjár villur.

Leikurinn er svo nokkuð jafn alveg fram á lokamínúturnar. Þegar um 4 mínútur eftir ná gestirnir að setja nokkur skot og stoppa þess á milli og eru komnir 6 stigum yfir þegar um 2 mínútur eru eftir, 74-80. Undir lokin fær Njarðvík í eitt skipti ágætis tækifæri til þess að jafna leikinn, en þriggja stiga skot Nico Richotti geigar. Stólarnir ná svo að loka leiknum með 5 stiga sigur, 79-84.

Atkvæðmestir

Sigtryggur Arnar Björnsson var atkvæðamestur í liði Tindastóls í dag með 20 stig og 5 stoðsendingar. Honum næstur var Taiwo Badmus með 17 stig og 9 fráköst.

Fyrir heimamenn í Njarðvík var Fotios Lampropoulos 30 stig, 12 fráköst og Dedrick Basile bætti við 19 stigum, 7 fráköstum, 10 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er í Síkinu á Sauðárkróki komandi sunnudag 24. apríl kl. 20:15.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Karfan.is/iHandle