Sigvaldi Eggertsson hefur framlengt samningi sínum við lið ÍR í Subway deild karla og mun hann leika með liðinu til ársins 2024. Staðfesti félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í kvöld.

Sigvaldi hefur verið með liðinu síðustu tvö tímabil, en á yfirstandandi tímabili skilaði hann 13 stigum, 5 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik, en hann var nokkuð frá vegna meiðsla og náði því aðeins 16 leikjum með liðinu.

Tilkynning:

Gleðin var ríkjandi í nýjum húsakynnum okkar ÍR-inga í Mjóddinni í dag þegar Sigvaldi Eggertsson framlengdi samning sinn við félagið. Sigvaldi, sem leikið hefur með ÍR síðastliðin tvö keppnistímabil, mun klæðast bláu treyjunni næstu tvö árin hið minnsta. Þetta eru að sjálfsögðu mikil gleðitíðindi fyrir okkur ÍR-inga enda er Sigvaldi einn mikilvægasti leikmaður liðsins.


Ísak Máni, sem viðstaddur var undirskriftina, hafði þetta um málið að segja:
,,Ég lagði mikla áherslu á að Valdi tæki slaginn með okkur í þeirri endurnýjun og uppbyggingu sem framundan er í Breiðholtinu. Hann spilaði heilt yfir vel í vetur en svigrúmið hjá honum til bætinga er mikið. Ég hlakka til að vinna áfram með Valda og vænti mikils af honum næstu árin. Hann hefur alla burði til að skara fram úr í Subway deildinni.”


Sjálfur sagðist Sigvaldi vera spenntur fyrir komandi tímum í nýjum Helli og staðráðinn í því að fjölga sigurleikjunum. ,,Síðasta tímabil var svolítið stöngin út, bæði hjá liðinu og mér persónulega vegna meiðsla í byrjun febrúar. Þau eru nú frá og ég þegar byrjaður í lyftingarsalnum og á parketinu. Ég get ekki beðið eftir að byrja að vinna með Wíum og ekki síður að spila í nýja húsinu í Mjóddinni. Það lítur mjög vel út.”
Liðið er nú að taka á sig mynd og má búast við frekari fréttum af þeim málum fljótlega.