Njarðvík lagði Tindastól í kvöld í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Subway deildar karla, 93-75. Eftir leikinn leiða Stólarnir einvígið enn 2-1 og geta með sigri í næsta leik tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu gegn Val. Fari svo að Njarðvík vinni leikinn á Króknum komandi laugardag 30. apríl, verður oddaleikur í Ljónagryfjunni þann 3. maí.

Fyrir leik

Njarðvík tók á móti Tindastól í kvöld í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild karla. Fyrir leik kvöldsins hafði Tindastóll unnið fyrstu tvo leik seríunnar og gátu því með sigri tryggt sig í úrslitin. Báðir höfðu leikirnir verið nokkuð spennandi undir lokin, sá seinni í Síkinu tvíframlengdur.

Gangur leiks

Gestirnir úr Skagafirði byrjuðu leik kvöldsins betur en heimamenn. Ná að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum og leiða með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta 21-28. Miklu munaði þar sóknarlega um framlag Sigtryggs Arnars Björnssonar og Taiwo Badmus, sem samanlagt voru komnir með 21 stig fyrir þá.

Með góðu 12-0 áhlaupi í upphafi annars leikhlutans nær Njarðvík forystunni og eru fimm stigum yfir þegar tæpar 8 mínútur eru til hálfleiks, 33-28. Naumlega heldur Njarðvík forskotinu út hálfleikinn, en munurinn er þrjú stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 49-46. Nokkur hiti virtist færast í leikinn undir lok hálfleiksins. Engin óíþróttamannsleg villa var þó dæmd í fyrri hálfleiknum og virtist enginn leikmanna stefna í villuvandræði, þó þrír byrjunarliðsleikmanna Njarðvíkur væru komnir með tvær villur. Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Nicolas Richotti með 11 stig á meðan að Taiwo Badmus var kominn með 17 stig fyrir Tindastól.

Heimamenn ganga enn á lagið í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann 30-17 og eru því komnir með þægilega 16 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 79-63. Um svipað leyti í leiknum á undan hafði Njarðvík verið með 18 stiga forskot og glutrað því niður, því allt eins líklegt að lokamínútur þessa leiks yrðu spennandi. Stólarnir gera sig líklega til þess að koma með áhlaup í upphafi fjórða leikhlutans, þar sem þeir setja muninn niður í 12 stig. Njarðvík nær þá aftur að setja fótinn á bensíngjöfina og eru tæpum 20 stigum yfir þegar 5 mínútur eru eftir. Undir lokin reyna Stólarnir hvað þeir geta til þess að komast aftur inn í leikinn, en allt kemur fyrir ekki, Njarðvík sigrar að lokum nokkuð þægilega, 93-75.

Atkvæðamestir

Nicolas Richotti var atkvæðamestur í liði Njarðvíkur í kvöld með 25 stig, 4 stoðsendingar og Fotios Lampropoulos bætti við 12 stigum og 9 fráköstum.

Fyrir Stólana var Taiwo Badmus og Sigtryggur Arnar Björnsson atkvæðamestir hvor um sig með 24 stig og 5 fráköst.

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er komandi laugardag 30. apríl í Síkinu á Sauðárkróki.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Jón Björn)

Viðtöl eru í vinnslu

Karfan.is/iHandle