Fyrsti leikur Hauka og Njarðvíkur í úrslitaeinvígi Subway deildar kvenna var á dagskrá í kvöld í Ólafssal í Hafnarfirði. Höfðu gestirnir úr Njarðvík nokkuð öruggan 11 stiga sigur, 59-70. Sigra þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrir leik

Í fjögur skipti mættust liðin í deildarkeppni Subway deildarinnar. Þar skiptu þau með sér sigrum, Haukar með tvo sigurleiki og Njarðvík með tvo, en allir unnust leikirnir á útivelli.

Í undanúrslitum lögðu Haukar Íslandsmeistara Vals 3-0 og Njarðvík vann Fjölni 3-1.

Gangur leiks

Nokkuð jafnræði er á með liðunum í upphafi leiks. Fyrst nær Njarðvík að vera skrefinu á undan áður en Haukar taka aðeins framúr. Deginum ljósara af þessum fyrstu mínútum einvígis liðanna að bæði liðin ætluðu að selja sig dýrt, Aliyah Collier hjá Njarðvík og Eva Margrét Kristjánsdóttir báðar komnar með 2 villur á fyrstu 5 mínútunum. Þegar sá fyrsti er á enda eru gestirnir úr Njarðvík þremur stigum yfir, 14-17.

Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í öðrum leikhlutanum, þar sem liðin skiptast á snöggum áhlaupum. Heimakonur í Haukum ná þó að vera tveimur stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 28-26. Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Eva Margrét Kristjánsdóttir með 9 stig á meðan að fyrir Njarðvík var Lavinia Silva einnig komin með 9 stig.

Aftur nær Njarðvík yfirhöndinni í upphafi seinni hálfleiksins, en með tveimur þristum frá Lovísu Henningsdóttur ná Haukar að snúa taflinu aftur sér í vil um miðjan þriðja leikhlutann. Haukar láta svo kné fylgja kviði næstu mínútur á eftir og ná sinni mestu forystu í leiknum, átta stigum, 46-38. Njarðvík nær þó nánast að alveg að koma til baka fyrir lok fjórðungsins, staðan fyrir þann fjórða 47-44.

Haukar ná að vera yfir fyrstu mínútur fjórða leikhlutans. Um hann miðjan nær Njarðvík þó góðu áhlaupi og eru stigi yfir þegar nákvæmlega fimm mínútur eru eftir, 51-52. Enn frekar ná þær að halda áfram og með laglegum þrist frá Aliyah Collier koma þær forystu sinni í sex stig þegar aðeins rúmar tvær mínútur eru eftir, 54-60. Undir lokin gera gestirnir svo vel að sigla frekar öruggum ellefu stiga sigur í höfn, 59-70.

Atkvæðamestar

Aliyah Collier var atkvæðamest í liði Njarðvíkur í kvöld með 31 stig og 20 fráköst. Henni næst var Lavina Silva með 15 stig og 5 fráköst.

Fyrir heimakonur var það Eva Margrét Kristjánsdóttir sem dró vagninn með 12 stigum, 7 fráköstum og Helena Sverrisdóttir bætti við 11 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er í Ljónagryfjunni í Njarðvík komandi föstudag 22. apríl, en hérna má sjá leikdaga úrslita.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Karfan.is/iHandle