Keflavík lagði Tindastól í kvöld í fjórða leik átta liða úrslita einvígis liðanna í Subway deild karla. Liðin eru því jöfn að sigrum í einvíginu, 2-2 og þarf því oddaleik komandi sunnudag 17. apríl í Síkinu á Sauðárkróki til að skera úr um hvort liðið fer áfram í undanúrslitin.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins höfðu allir leikir einvígis liðanna unnist á heimavelli. Tindastóll unnið fyrsta og þriðja heima og Keflavík leik tvö í Blue Höllinni. Fyrstu tveir leikirnir nokkuð öruggir sigrar heimaliðanna, Tindastómm eð 21 í Síkinu og Keflavík með 17 í Blue Höllinni, en þriðji leikurinn í Síkinu var sannkallaður naglbítur, þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en með lokakörfu leikmanns Tindastóls Zoran Vrkic á lokasekúndunum, 95-94.

Gangur leiks

Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað þar sem báðum liðum gengur nokkuð auðveldlega að setja stig á töfluna. Keflavík nær þó snemma forystunni, mest 8 stigum í fyrsta leikhlutanum, en Stólarnir ná að loka gatinu að mestu fyrir lok fjórðungsins, 21-19. Með góðu áhlaupi í upphafi annars leikhlutans nær Keflavík aftur að sigla framúr og eru á tímabili 15 stigum á undan gestunum, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 13 stig, 47-34.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Mustapha Heron með 14 stig á meðan að Taiwo Badmus var kominn með 12 stig fyrir Tindastól.

Segja má að það hafi verið smá meiri áræðni í Tindastól í upphafi seinni hálfleiksins. Þeir ná samt lítið sem ekkert að vinna á forystu heimamanna. Munurinn enn 12 stig eftir þrjá leikhluta, 65-53. Stólarnir koma svo með gott áhlaup í upphafi fjórða leikhlutans. Pressa allan völl og uppskera þó nokkra tapaða bolta. Ná að koma sér aftur inn í leikinn og eru aðeins 2 stigum frá heimamönnum þegar 7 mínútur eru eftir, 67-65. Aftur virðist Keflavík ætla að keyra framúr, en ólseigir Stólarnir ná áfram að halda í við þá og eru aðeins 4 stigum frá þeim þegar rúmar 3 mínútur eru eftir, 77-73. Með góðum skotum frá Mustapha Heron og Vali Orra Valssyni ná heimamenn að gera útum leikinn á lokamínútunum og sigra að lokum nokkuð örugglega, 91-76.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík hefur gengið vel að frákasta það sem af er einvígi og leikurinn í kvöld var engin undantekning. Keflavík vinnur frákastabaráttuna með 43 gegn aðeins 33 fráköstum Tindastóls.

Atkvæðamestir

Mustapha Heron var bestur í liði Keflavíkur í kvöld með 27 stig og 4 fráköst. Honum næstur var Dominykas Milka með 15 stig og 12 fráköst.

Fyrir Stólana var Javon Bess atkvæðamestur með 24 stig, 6 fráköt og Taiwo Badmus bætti við 22 stigum.

Hvað svo?

Liðin þurfa að mætast í oddaleik komandi sunnudag 17. apríl í Síkinu á Sauðárkróki til þess að skera úr um hvort liðið fer áfram í undanúrslitin.

Tölfræði leiks