Keflavík og Tindastóll mættust í öðrum leik úrslitakeppninnar í Keflavík í kvöld. Tindastóll vann fyrsta leik liðanna nokkuð auðveldlega fyrir norðan þar sem Keflvíkingar mættu andlausir til leiks. Annað var þó uppi á teningnum í kvöld, þar sem að Keflavík sigraði leikinn með 17 stigum, 92-75.


Leikurinn var jafn í upphafi og mikil spenna í loftinu. Tindastóll leiddi um miðjan fyrsta leikhluta 9-13 en varnarleikur beggja liða sterkur og lítið flæði sóknum liðanna fyrir vikið. Halldór Garðar tók sig til við að kýla menn í pung, eitthvað sem engum sæmir. Milka setti svo tvö víti í lok leikhlutans, staðan 19-21.
Tindastóll komu sterkari til leiks í öðrum leikhluta og komust 7 stigum yfir eftir mínútu leik en Keflavík átti svar og komust yfir, 38-27 með 18-0 áhlaupi. Leikurinn jafnaðist það sem eftir lifði hálfleiksins þar sem liðin skiptust á körfum. Staðan 41-34.


Mikil harka í leiknum þá sérstaklega hjá Keflvíkingum en andleysi fyrsta leiksins virtist fyrir bý.
Tindastóll komu sterkir til leiks seinni hálfleik og minnkuðu muninn í 1 stig á þrem mínútum. Keflvíkingar stóðu þó áhlaupið af sér og héldu leiknum í tveggja til þriggja körfu leik. Leiðir skildu um miðjan þriðja leikhluta og Keflavík komnir 16 stiga forystu, 62-46. Tindastóll svaraði með 12-2 áhlaupi og meiri hraði kominn í leikinn. Staðan 66-60 fyrir fjórða leikhluta.


Keflavík leiddi með um 10 stigum framan af síðasta leikhlutanum og virtust sterkari fyrir loka átökin. Tindastóll minnkaði muninn í 5 stig en tókst ekki að komast nær og Keflavík kláraði svo leikinn nokkuð þægilega. Lokatölur 92-75.


Keflvíkingar voru flottir í kvöld og mættu ákveðnir til leiks. Vörnin var frábær í kvöld og greinilegt að menn mættu með rétt hugarfar í leikinn. Tindastóll svaraði aldrei að fullu hörku Keflvíkinga og voru því að elta allan leikinn. Stólarnir eiga þó talsvert inni og ætla má að þriðji leikur liðanna verði frábær nú þegar liðinn hafa unnið einn leik hvort.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Umfjöllun / Árni Rúnar Guðmundsson