Valur lagði Stjörnuna í kvöld í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla, 85-75. Sigurinn sá þriðji fyrir Val í jafnmörgum leikjum, en þeir munu eftir hann halda í undanúrslitin á meðan að Stjarnan er komin í sumarfrí.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Finn Frey Stefánsson þjálfara Vals eftir leik í Origo Höllinni.

Finnur…fyrir hlutlausa körfuboltaáhugamenn og Stjörnumenn auðvitað var svolítið ljótt af ykkur að sópa þessu 3-0…hvað á það að þýða??

Jah, það er bara þrjár góðar frammistöður hjá okkur, við vorum að spila gegn frábæru liði og fyrir mér voru þetta allt saman 50/50 leikir fyrirfram. Og það að hafa náð að klára þetta í 3 leikjum er bara eitthvað sem ég er gríðarlega stoltur af. Við sýnum ákveðið þroskamerki og gerum bara vel, náum að leysa það sem þeir voru að gera á báðum endum vallarins á köflum mjög vel og sömuleiðis þegar þeir breyttu einhverju. Ég er mjög stoltur af þessu.

Nákvæmlega. Saga Valsliðsins í vetur hefur verið sú að þakið virðist vera hátt, vörnin hefur verið góð meira og minna og sóknin hefur verið upp á við…og sagan heldur bara áfram í sömu átt?

Við höfum verið að leita svolítið að okkur sóknarlega í allan vetur, finna hvað við viljum gera. Það er eins og gengur þegar það eru miklar breytingar á milli tímabili og við erum með ákveðna jókera í Pavel og Kristó sem falla kannski ekki inní alveg hefðbundin körfuboltaform. Mér fannst við gera það virkilega vel í þessari seríu að nýta Pavel eins og hægt er og sömuleiðis að fá Kára, Pablo, Callum og Jacob í þennan skotham sem þeir hafa verið í í þessari seríu er bara frábært.

Einmitt, Jacob skaut náttúrulega rosalega vel í þessum leik, það var nánast allt ofan í. En þetta var allt í fínu flæði, hann var ekkert að draga liðið áfram neitt og kannski svolítið í andstöðu við það sem gerðist með Jordan á síðasta tímabili?

Já…munurinn í ár er kannski að við erum með fleiri vopn og erum reynslunni ríkari. Í fyrra vorum við á vondum stað þegar við fengum Jordan og hann nær að breyta liðinu en núna erum við með jafnvægi í Pablo, Kára og Callum m.v. í fyrra og við vildum fá mann til að koma inn í liðsheildina en ekki einhvern til að draga liðið á bakinu. Við vitum hvað hann getur og hann steig hressilega upp í kvöld.

Nákvæmlega. Ég þykist vita að það þýðir kannski lítið að tala við þig um mögulega næstu andstæðinga…Þór Þ. eru þó líklegastir…en þú ert væntanlega ekkert byrjaður að spá mikið í þetta…

Maður hefur prófað með KR að vera bæði í fyrsta sætinu og um miðja deild og þegar maður er í þessu miðjuhnoði þá fer maður í hrikalega erfiða leiki í 8-liða úrslitum eins og raun bar vitni núna í ár og í fyrra og maður getur í raun ekkert hugsað lengra. Það er bara þetta klassíska að taka því sem kemur, notum tímann fram að næsta leik til að hvíla lúin bein og hvíla hausinn aðeins og passa svo að koma með sama fókus, agressjón og hugarfar og við gerðum í þessari seríu.