8 liða úrslit, tímabilið 2021-2022

Úrslitakeppni Subway-deildar karla hefst í kvöld og fjölmargir nú þegar farnir að eiga í vandræðum með úrgangsefni sín af spennu fyrir þeirri veislu. Allar viðureignirnar fjórar gætu orðið allsvaðalegar en ekki er síst spennandi að sjá hvernig leikar fara á milli Stjörnunnar frá Garðabæ og Valsmanna frá Hlíðarenda.

Fyrir einhverjum vikum síðan var Stjörnuliðinu líkt við vel gerða en seinþroska manneskju. Það gekk hvorki né rak hjá Arnari og félögum framan af móti þó efniviðurinn virtist vera af besta tagi. En liðið virðist nú vera að komast til vits og vikna. Segja má að liðið hafi fermst á dögunum og gengið í fullorðinna manna tölu með pompi og prakt í Smáranum – veislugestir voru fjölmargir og glaðbeittir og liðið hlaut að launum bikar og fjármuni.

Að vísu hafa Stjörnumenn lagt það í vana sinn að vinna bikarinn u.þ.b. annað hvert ár síðustu 13 árin. Aldrei hefur þó fullum þroska verið náð í framhaldinu. Í lífsins ólgusjó er það líka harla lítils virði að flokkast í tölu fullorðinna samkvæmt einhverri fornri hefð og hvert mannsbarn þekkir það vel að fermingarpeningarnir eiga það til að duga skammt og hverfa eitthvert á vit ævintýranna á einu augabragði.

En það sem hefur aldrei gerst getur auðveldlega gerst aftur, eins og einhver sagði. Hver veit nema að Stjörnumenn nái fullum þroska að þessu sinni og landi þeim stóra líka – loksins. Jafnvel þó lífshamingjan sanna felist í leiðinni sjálfri upp á toppinn eftirsótta – eins og andans menn vita – er jú markmiðið Íslandsmeistaratitillinn sjálfur og ekkert minna. Þrautirnar framundan eru þrjár, rétt eins og í ævintýrunum, og fyrsta þrautin er Valur.

Valsmönnum hefur ekki verið líkt við neina manngerð svo undirritaður viti til – nema þá kannski helst við múrsteinahleðslumenn.  Það er ljóta líkingin – og liðið á mikið betra skilið – en líkingin vísar auðvitað til þess múrsteinakasts sem liðið hefur boðið upp á fyrir utan þriggja stiga línuna í vetur. Hér er kannski frekar verið að vísa til umræðunnar en tölfræðinnar, bæði hefur hittnin skánað að undanförnu hjá liðinu og benda má á að nýting Vals er, ef rýnt er í tölfræðina að deildarkeppninni lokinni, betri en Stjörnumanna! Ekki er heldur úr vegi að minnast á nýjasta vinnumanninn að Hlíðarenda, Jacob D. Calloway. Hann virðist vera ágætlega nýmóðins, fellur vel inn í liðið og færir því aukna vídd sóknarlega.

Þó er ljóst að það eru ekki langskot sem fært hafa liðinu 3. sætið og heimaleikjarétt í 8 liða úrslitum. Múrsteinalíkinguna mætti kannski útfæra á þann veg að vörnin hefur verið sem nautsterkur, ókleifur múrsteinsveggur sem andstæðingarnir hafa þurft að skjóta yfir. Finnur og Pavel eru bara þannig menn að þeir vilja byggja á traustum hefðargrunni sem staðist hefur tímans tönn – þ.e. að spila góða vörn og reyna að komast sem oftast sem næst körfunni því þá er líklegra að hitta boltanum ofan í! Þeir félagar vita vel að tíska er bara einfalt trikk til að selja fáráðlingum alltof dýra hluti.

Til að reyna að draga þetta saman má kannski segja að liðin eru merkilega áþekk. Arnar Guðjóns vill líka spila góða vörn og tekur gjarnan þátt í henni á hliðarlínunni, jafnvel smá inn á vellinum! Hann vill líka fá stig undir körfunni og alþekkt er að sóknarfráköst liðsins hafa skilað mörgum sniðskotum og tveimur öruggum stigum í kjölfarið. Og talandi um tvö stig, aðeins tvö stig skildu liðin að þegar talið var upp úr kössunum eftir deildarkeppnina. Það er því ekki augljóst hvort liðið er þrautin og hvort er sonur karls og kerlingar (afsakið, leghafans) í ævintýralíkingunni – þó Hinn þriðji verði að teljast líklegasta hetjan af öllum!