Höttur lagði Fjölni í kvöld með minnsta mun mögulegum 107-106 í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í fyrstu deild karla. Höttur því komið með yfirhöndina 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitin um sæti í Subway deildinni.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Grafarvogi sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Náðu að vera skrefinu á undan á upphafmínútunum og leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 29-36. Heimamenn í Hetti ná undir lok fyrri hálfleiksins að halda í við Fjölnismenn, sem enn eru þó 6 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 52-58.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleik var Arturo Fernandez með 15 stig á meðan að fyrir Fjölni var Dwayne Ross Foreman Jr. kominn með 18 stig.

Í upphafi seinni hálfleiksins halda heimamenn áfram að hanga í gestunum og er munurinn kominn niður í aðeins eitt stig fyrir lokaleikhlutann, 78-79. Í honum er leikurinn svo stál í stál. Þegar um fjórar sekúndur eru eftir fær leikmaður Hattar Tomothy Guers tvö víti sem hann setur niður og kemur sínum mönnum einu stigi yfir, 107-106. Tilraun Fjölnis til að taka forystuna aftur og vinna leikinn klikkar og Höttur stendur uppi sem sigurvegari, 107-106.

Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið nokkuð jafn allan tímann, þá leiddi Höttur í aðeins 3 mínútur af honum og má því segja að það sé nokkuð vel af sér vikið hjá þeim að hafa tekið þennan mikilvæga fyrsta sigur.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Hött í leiknum var Dwayne Ross Foreman Jr. með 32 stig og 11 fráköst. Fyrir Hött var það Timothy Guers sem dró vagninn með 35 stigum og 9 stoðsendingum

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er þann 4. apríl í Dalhúsum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtal / Pétur Guðmundsson