Valur lagði Stjörnuna í kvöld í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla, 85-75. Sigurinn sá þriðji fyrir Val í jafnmörgum leikjum, en þeir munu eftir hann halda í undanúrslitin á meðan að Stjarnan er komin í sumarfrí.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Hlyn Bæringsson leikmann Stjörnunnar eftir leik í Origo Höllinni.

Menn eru auðvitað ekkert sérstaklega glaðir eftir svona tap…það hefur verið talað um það í allan vetur að Valsmenn væru verðandi skrímsli í þessari deild, vörnin rosalega góð og stígandi sóknarlega…þið lendið kannski bara svolítið í þessu skrímsli í þessari seríu og Valsmenn voru einfaldlega sterkari…?

Já…þetta var svo langt eintal hjá þér að ég man ekki alveg hvar þú byrjaðir! En jájá Valsmenn voru betri og við lentum bara í vandræðum með að skora, þú komst inn á það einhvers staðar! Það var mjög erfitt að skora á þá og í þessum leik þá gátum við ekki frákastað á meðan við vorum að skipta, við vorum að prófa það aðeins, það gekk allt í lagi til að byrja með en við gátum ekki frákastað, við fengum nokkuð mikið af þannig körfum.

Einmitt. Nú hefur það sjaldan gerst að lið hafi komið til baka eftir að hafa lent 2-0 undir og sigrað, er það eitthvað sem maður hefur pínulítið á bakvið eyrað án þess að ráða við það skiluru, að koma hérna í þriðja leik 2-0 undir og…

Neinei, maður hefur þá tölfræði ekkert á bakvið eyrað, en ef maður talar hreint út þá veistu að þú ert í holu. Í þessu tilfelli þá vorum við fullir sjálfstraust og það var ekkert gervisjálfstraust, við töldum að við gætum alveg unnið þetta. Ég hef alveg lent 2-0 undir þar sem ég vissi alveg að það var búið. Mér leið ekki þannig fyrir þennan leik.

En tímabilið engin hörmung neitt, skemmtileg bikarhelgi og bikarinn í ykkar höndum, þannig að þú ert væntanlega ekkert að öllu leyti ómögulegur eftir tímabilið.

Það er kannski þannig akkúrat núna, ég vaknaði ekkert í morgun að spá í því að ég væri bikarmeistari eða einhver meistari einhvern tímann! Það eru vonbrigði dagsins í dag, þetta eru auðvitað gríðarleg vonbrigði. Margt var vissulega fínt en margt ekki nógu gott heldur í heildina.

Akkúrat. Má ég spyrja þig út í hvernig þú sérð framhaldið hjá þér, hvort þú takir slaginn aftur eða hvað…?

Ég bara veit það ekki…

…taka bara Pavel á þetta og leyfa sumrinu að líða og svona…?

Já, ég ætla bara að tala við mitt fólk aðallega, ég hef ofboðslega gaman af því að spila svona leiki, ég nánast lifi fyrir það. Ég skal bara vera hreinskilinn og ég kvíði því bara svolítið að hætta því. Ég get ekki verið heima hjá mér að vigta ofan í mig matinn eins og Logi sko…því miður þá leyfa aðstæður það ekki, og einhvern tímann detta hjólin undan, ég geri mér grein fyrir því. Ég þarf að sjá til hvort ég hafi einfaldlega tíma í það að sinna þessu eins og ég þarf að gera til að vera góður. Ég get alveg spilað í deildinni áfram, það er engin spurning.

Einmitt, og bara takk fyrir skemmtunina í vetur!

“Já, takk sömuleiðis.

Sagði meistari Hlynur og vonandi fáum við a.m.k. eitt tímabil í viðbót með hann innanborðs.