Haukar lögðu heimakonur í Njarðvík í kvöld í öðrum leik úrslitaeinvígis liðanna í Subway deild kvenna, 62-82. Staðan í einvíginu er því jöfn 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrir leik

Njarðvík kom einhverjum á óvart og vann ellefu stiga sigur í fyrsta leik einvígis liðanna í Hafnarfirði. Mikið jafnræði var þó á með liðunum í þeim leik alveg fram á lokamínúturnar og má gera ráð fyrir að svipað verði uppi á teningnum í kvöld.

Gangur leiks

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu leik kvöldsins eilítið betur. Heimakonur ná þó að halda í við þær undir lok fjórðungsins, en munurinn er aðeins tvö stig fyrir þann annan, 16-18. Undir lok fyrri hálfleiksins ná Haukar svo að láta kné fylgja kviði og eru 10 stigum á undan þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 32-42. Mestu munaði um framlag Haiden Palmer fyrir Hauka í fyrri hálfleiknum, en hún var með 11 stig og 6 fráköst. Fyrir heimakonur í Njarðvík var það Lavína Silva sem dró vagninn með 12 stigum.

Haukar bæta enn við forskot sitt í upphafi seinni hálfleiksins. Setja forystu sína mest í 17 stig í þriðja leikhlutanum, en þegar að fjórðungurinn er á enda munar 14 stigum, 44-58. Í lokaleikhlutanum reyna heimakonur hvað þær geta til þess að komast aftur inn í leikinn, eru nálægt því, en komast aldrei inn fyrir 10 stigin. Niðurstaðan að lokum 20 stiga sigur Hauka, 62-82.

Atkvæðamestar

Haiden Palmer var best í liði Hauka í dag með 22 stig og 8 fráköst. Þá bætti Helena Sverrisdóttir við 10 stigum, 8 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Fyrir Njarðvík var Aliyah Collier atkvæðamest með 21 stig, 13 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Henni næst var Lavína Silva með 15 stig og 4 fráköst.

Hvað svo?

Þriðji leikur liðanna er á dagskrá í Ólafssal í Hafnarfirði komandi mánudag 25. apríl.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Karfan.is/iHandle