Valur og Haukar mættust í fyrsta leik undanúrslita í Subway deild kvenna að Hlíðarenda.


Greinilegt var á fyrstu sóknum liðanna að taugarnar voru þandar en Haukar skoruðu fyrstu stig kvöldsins og Valur svaraði um hæl. Haukar voru skrefinu framar framan af fyrsta leikhluta og leiddu 9-3 um eftir 5 mínútur. Og eftir að Valur tók leikhlé héldu Haukar uppteknum hætti og juku jafnt og þétt forskotið en Valur setti síðustu stig leikhlutans, staðan 12-19.


Leikurinn var nokkuð jafn í upphafi annars leikhluta þó Haukar ávalt skrefinu á undan. Valsörum óx þó ásmeginn og höfðu minnkað muninn í 3 stig er 5 mínútur lifðu fyrri hálfleiks. Valur komst svo yfir undir lok hálfleiksins og skiptust svo liðin á að skora út hálfleikinn, staðan 38-36 Val í vil.


Leikurinn var mikið við það sama í upphafi seinni hálfleiks, jafn og spennandi.Valur komst fimm stigum yfir að fimm mínútum liðnum en mikil barátta einkenndi leikinn. Haukar áttu svo síðasta áhlaup þriðja leikhluta, höfðu minnkað muninn í 1 stig, 47-46, og virtist stefna í æsilegan loka leikhluta.


Liðin skoruðu til skiptis í upphafi fjórða leikhluta en Valur hálfu skrefi á undan. Haukar komust yfir 50-51 um miðjan fjórðunginn og mikil spenna komin í leikinn. Í stöðunni 54-56 fengu Valsarar víti en brendu af öðru þeirra, staðan 55-56. Sóknin á eftir endaði með sniðskotskörfu Hauka eftir sóknarfrákast, staðan 55-58 og 30sek eftir. Valur brenndi svo af þriggja stiga skoti og sendu Haukana á vítalínuna þar sem Helena ísaði leikinn. Lokatölur 58-61.


Mikið var um mistök á báða bóga í kvöld og fór mikið af sóknum í súginn. Varnarleikur beggja liða var til fyrirmyndar en bæði lið mega skerpa sóknarvopn sín fyrir næsta leik.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Umfjöllun / Árni Rúnar Guðmundsson