Haukar lögðu Íslandsmeistara Vals í kvöld í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna, 73-80. Leikurinn sá þriðji sem Haukar vinna, sem með sigrinum sópa Val í sumarfrí.

Fyrir leik

Haukar höfðu unnið tvo fyrstu leik einvígis liðanna og þurftu því aðeins einn sigur í viðbót til þess að tryggja sig áfram í úrslitaeinvígið, þar sem Fjölnir eða Njarðvík verður andstæðingurinn.

Gangur leiks

Heimakonur í Val ná að vera skrefinu á undan á upphafsmínútum leiksins. Ná mest 6 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum. Haukar eru þó fljótar að snúa því sér í vil og eru 7 stigum yfir við lok fjórðungsins, 19-26. Í öðrum leikhlutanum láta Haukar svo kné fylgja kviði. Fara með forystu sína mest í 19 stig, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 15 stig, 37-52. Áhyggjuefni fyrir Val var að um miðjan annan fjórðunginn þurfti Ásta Júlía Grímsdóttir að fara af velli vegna meiðsla, en hún hefur verið einn besti leikmaður liðsins þetta tímabilið. Ásta kom þó aftur inn á undir lok hálfleiksins og kláraði hann.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Ameryst Alston með 15 stig á meðan að Haiden Palmer var komin með 18 stig fyrir Hauka.

Íslandsmeistarar Vals ná að koma til baka í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann með 10 stigum og eru því aðeins 5 stigum fyrir aftan fyrir lokaleikhlutann, 60-65. Meiðslavandræði Vals halda áfram í upphafi fjórða leikhlutans þegar að bæði Ameryst Alston og Hildur Björg Kjartansdóttir þurfa að yfirgefa völlinn. Báðar eru þó mættar aftur á bekkinn hjá Val innan skamms tíma og koma svo aftur inn á völlinn. Haukar ná í framhaldinu að setja forystu sína aftur í tveggja stiga tölu, eru 10 stigum yfir þegar tæpar 5 mínútur eru eftir, 64-74. Undir lokin ná Haukar með mikilli seiglu að sigla að lokum 7 stiga sigur í höfn, 73-80.

Atkvæðamestar

Haiden Denise Palmer var best í liði Hauka í kvöld með 24 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá bætti Helena Sverrisdóttir við 11 stigum og 7 fráköstum.

Fyrir Val var það Ameryst Alston sem dró vagninn með 23 stigum, 10 fráköstum og 6 stoðsendingum. Henni næst var Hildur Björg Kjartansdóttir með 18 stig og 8 fráköst.

Hvað svo?

Íslandsmeistarar Vals eru komnar í sumarfrí á meðan að Haukar bíða niðurstöðu undanúrslita einvígis Njarðvíkur og Fjölnis.

Tölfræði leiks