Dominykas Milka hefur yfirgefið Keflavík eftir þrjú ár með félaginu. Staðfestir leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag. Samkvæmt leikmanninum mun það ekki hafa verið vilji nýrrar stjórnar Keflavíkur að hafa hann áfram og því hafi samningi hans verið sagt upp og hann rekinn.

Dominykas kom fyrst til Keflavíkur fyrir 2019-20 tímabilið og hefur síðan þá verið einn af betri leikmönnum deildarinnar. Best skilaði hann 23 stigum og 10 fráköstum að meðaltali í leik í deildinni á síðasta tímabili í Keflavíkurliði sem vann tuttugu leiki og tapaði aðeins tveimur í deildinni, en þá fóru þeir alla leið í úrslit þar sem þeir töpuðu fyrir ríkjandi Íslandsmeisturum Þórs.

Á yfirstandandi tímabili var Dominykas einnig atkvæðamikill, með 15 stig og 10 fráköst að meðaltali í 27 leikjum fyrir félagið.