Danero Thomas og Everage Richardson hafa framlengt samninga sína við Subway-deildar lið Breiðabliks en báðir áttu frábært tímabil í vetur fyrir liðið sem var hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina.

Danero fann sig vel í kerfi Péturs Ingvarssonar í vetur en hann var með 15,9 stig að meðtali í leik á tímabilinu sem er hans besta meðalskor í efstu deild. Hann var ein besta þriggja stiga skytta deildarinnar með 38,4% nýtingu úr 9,6 skottilraunum í leik.

Everage varð stigakóngur deildarinnar á tímabilinu en hann skoraði 25,5 stig að meðaltali í leik. Þetta var fimmta tímabil hans hér á landi en hann hefur einnig spilað með ÍR, Hamri og Gnúpverjum. Hann lék þrjú tímabil í 1. deildinni og leiddi hana í stigaskorun öll árin. Áður en hann kom til Íslands þá lék hann til margra ára í Þýskalandi og Lúxemborg.