Það var allt undir í Seljaskóla í kvöld þegar ÍR og KR mættust í oddaleik í undanúrslitum 1. deildar. Stöð tvö sport mætt í hús, Sigmundur Már Herbertsson leiddi dómarateymið og liðin vissu að það væri sigur eða sumarfrí.

ÍR stelpur mættu sterkari til leiks og var staðan 9-2 eftir rúmlega tveggja mínútu leik en tveir þristar frá Perlu Jóhannsdóttir í KR löguðu stöðuna. Eftir 1. leikhluta var staðan 21 – 15 fyrir ÍR og var það öflugur varnarleikur ÍR sem skildi á milli en þær vörðu 5 skot í 1. leikhluta og tilþrif leiksins litu dagsins ljós þegar Sólrún Sæmundsdóttir blokkaði Chelsea Nacole Jennings leikmann KR með tilþrifum.

Annar leikhluti var jafn og skemmtilegur þar sem ÍR hélt þó ávallt forustunni. Munaði þar miklu um öflugt sóknarframlag frá Aniku Lindu Hjálmarsdóttur sem var með 14 stig í fyrri hálfleik en varnarleikur ÍR liðsins var frábær og blokk-veislan hélt áfram í þessum leikhluta. Hjá KR var það Perla og Chelsea sem drógu vagninn með 10 stig hvor. Staðan í hálfleik var 43-33 fyrir ÍR.

Seinni hálfleikur var góð skemmtun þar sem KR stelpur gerðu allt sem þær gátu til þess að minnka muninn en þrátt fyrir hetjulega baráttu sigldu ÍR-stelpur þessu nokkuð örugglega í höfn og unnu að lokum 19 stiga sigur, 84-65. Í raun má segja að munurinn á liðunum sé aldur og reynsla. Lykilleikmenn ÍR eru allar nema ein komnar af framhaldsskóla aldri meðan KR liðið er með blöndu af reynsluboltum og ungum og efnilegum stelpum.

Anika var frábær hjá ÍR í kvöld og endaði leikinn með 20 stig, 11 fráköst og 3 varin skot, Gladiana Aidaly Jimenez var einnig með 20 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Nína Jenný Kristjánsdóttir var með 10 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 varin skot.

Chelsea Nacole Jennings var stigahæst KR-inga með 18 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar, Ragnhildur Arna Kristjánsdóttir var með 13 stig og Anna María Magnúsdóttir var með 12 stig en hún er 16 ára gömul og virkilega efnilegur leikmaður

ÍR eru því komnar í úrslit í 1. deild þar sem þær keppa við Ármann um sæti í Subway-deildinni að ári. KR er komið í sumarfrí en KR-liðið er ungt og efnilegt lið og fer þessi sería sannarlega í reynslubankann hjá ungu leikmönnunum enda fæstar spilað fyrir framan nánast fullu húsi áður og með Ghetto holligans í stúkunni.

Að lokum verð ég að fá að hrósa ÍR og KR fyrir frábæra seríu og stuðningsmönnum liðanna fyrir góða mætingu og stuðning úr stúkunni. Það eru háværar raddir sem heyrast um að fjölga eigi liðum í Subway deild kvenna en ég verð að segja að ég er ósammála því á þessum tímapunkti. Í dag erum við með tvær deildir í körfubolta kvenna sem báðar eru hrikalega spennandi. Tvö ár í röð er mikil samkeppni um að komast upp í efstu deild og flest lið komin með erlenda leikmenn.

Úrslitakeppnin í fyrra var æsispennandi sem og úrslitakeppnin núna, Stöð 2 sport gert vel að sýna frá leikjum og góð mæting og stemmning á pöllunum. Það á að var eftirsóknarvert en ekki of sjálfsagt að komast upp í efstu deild og aðeins á færi þeirra bestu. Á sama tíma er nauðsynlegt að vera með öfluga 1. deild þar sem leikmenn geta sótt sér reynslu. Í mínum huga er næsta markmið að halda áfram að efla 2. deild kvenna sem skilar því vonandi að fleiri stelpur spila körfubolta í meistaraflokki og 1. deildin getur þá haldið áfram að vaxa. Vonandi verður síðan hægt að fjölga í efstu deild eftir tvö ár án þess að veikja 1. deildinna. Lykillinn er því er að við höldum áfram að fjölga liðum er senda meistaraflokk kvenna til keppni, þannig verður hægt að hafa 10 liða efstu deild og 10 liða 1.deild.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Umfjöllun / Bryndís Gunnlaugsdóttir