Ármann tryggði sig í kvöld upp úr 2. deild karla í 1. deildina með öðrum sigri á Þrótti Vogum í úrslitaeinvígi liðanna. Ármann höfðu áður verið deildarmeistarar deildarinnar, en í heild unnu þeir allan 21 leik sinn á tímabilinu, 18 í deildarkeppninni og alla þrjá leiki undanúrslita og úrslita.

Fyrir leik

Fyrsta leik einvígis liðanna vann Ármann nokkuð örugglega síðasta sunnudag í Kennó, 102-77.

Gangur leiks

Leikurinn var mjög jafn og spennandi í fyrsta leikhlutanum. Það voru þó heimamenn í Þrótti sem náðu oftar en ekki að vera körfu á undan gestunum. Allt er þó jafnt eftir þennan fysrta fjórðung, 22-22. Í öðrum leikhlutanum lokar Ármann sjoppunni v arnarlega, vinna leikhlutann 31-11 og eru 20 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 33-53.

Stigahæstur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Nökkvi Már Nökkvason með 9 stig á meðan að Gunnar Ingi Harðarson var kominn með 12 stig fyrir Ármann.

Ármann lætur svo kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins. Gera meira og minna útum leikinn í þriðja leikhlutanum sem þeir vinna með 9 stigum og eru því komnir með 29 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 52-81. Undir lok leiksins má svo segja að Ármann hafi bar siglt þessu heim, vinna að lokum með 30 stigum, 73-103.

Atkvæðamestir

Illugi Steingrímsson var bestur í liði Ármanns í kvöld, skilaði 19 stigum og 11 fráköstum. Honum næstur var Gunnar Ingi Harðarson með 18 stig og 5 fráköst.

Fyrir Þrótt var það Brynjar Bergmann Björnsson sem dró vagninn með 21 stigi og Gabríel Sindri Möller bætti við 18 stigum.

Hvað svo?

Ármann fer upp og tekur sæti ÍA í fyrstu deildinni á næsta tímabili á meðan að Þróttur Vogum leikur áfram í annarri deildinni.

Tölfræði leiks