Valur lagði Breiðablik í kvöld í Subway deild karla, 96-88. Eftir leikinn er Valur í 3. sæti deildarinnar með 26 stig á meðan að Breiðablik er í 9. sætinu með 18 stig.

Fyrir leik

Í fyrri leik liðanna í deildinni hafði Breiðablik tveggja stiga sigur gegn Val í Smáranum þann 16. desember, 89-87.

Gangur leiks

Heimamenn í Val byrjuðu leik kvöldsins af miklum krafti. Leiða mest með 20 stigum á upphafsmínútunum, en þegar fyrsti fjórðungur er á enda eru þeir 16 stigum yfir, 36-20, þar sem að Hjálmar Stefánsson var kominn með 13 stig. Undir lok fyrri hálfleiksins hóta heimamenn svo að gjörsamlega gera útum leikinn, en Blikar gera vel í að halda muninum undir 20 stigum í annars afleitum hálfleik hjá þeim. Munurinn 19 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 62-43.

Fyrir heimamenn hafði Hjálmar Stefánsson farið gjörsamlega af kostum í fyrri hálfleiknum og var með 21 stig á meðan að Everage Richardson var stigahæstur Blika með 13 stig.

Mikill ólgusjór var hjá Blikum í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem að meðal annars þjálfara þeirra Pétri Ingvarssyni var vikið úr húsi með tveimur tæknivillum. Þeir náðu þó að vinna sig aftur inn í leikinn í fjórðungnum og komust einu stigi næst heimamönnum undir lok þess þriðja, 78-77. Munurinn var þó 3 stig fyrir lokaleikhlutann, 80-77.

Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi fjórða leikhlutans. Þar sem aðeins munar 2 stigum á liðunum þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum, 90-88. Á lokamínútunum ná heimamenn að skella í lás varnarlega, halda Blikum stigalausum og sigra að lokum með 8 stigum, 96-88.

Atkvæðamestir

Fyrir gestina var Everage Richardson atkvæðamestur með 20 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá bætti Danero Thomas við 17 stigum og 10 fráköstum.

Fyrir heimamenn í Val var Kristófer Acox atkvæðamestur með 14 stig, 15 fráköst og Hjálmar Stefánsson honum næstur með 21 stig og 6 fráköst.

Hvað svo?

Lokaleikur deildarkeppni beggja liða er þann 31. mars, en þá heimsækir Valur granna sína í KR á meðan að Breiðablik fær Stjörnuna í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen/Væntanlegt)