Haukar lögðu Fjölni í kvöld í Subway deild kvenna, 77-81. Eftir leikinn sem áður er Fjölnir í efsta sæti deildarinnar með 30 stig á meðan að Haukar eru í 2. sætinu með 28 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu í þrígang áður mæst í deildinni á tímabilinu. Fjölnir unnið tvo leiki, en Haukar einn. Síðasti leikur þeirra var þann 3. febrúar í Ólafssal, en þá unnu Haukar með 11 stigum, 88-77.

Í lið Hauka vantaði Sólrúnu Ingu Gísladóttur í leiknum, en samkvæmt þjálfara Hauka var hún frá vegna meiðsla. Munar um minna fyrir liðið, þar sem Sólrún hefur verið að skila 7 stigum, 3 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik í vetur.

Gangur leiks

Heimakonur í Fjölni fara heldur betur af stað í leiknum. Eru snöggar að ná sér í nokkurra körfu forystu sem þær halda út fyrsta leikhlutann, 26-19. Haukar taka við sér í öðrum leikhlutanum, en Fjölnir gerir þó vel að ná ennþá að vera skrefinu á undan undir lok leikhlutans. Munurinn 4 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-39.

Stigahæst í liði Fjölnis í fyrri hálfleiknum var Sanja Orozovic með 12 og þá var Aliyah Mazyck með 11 stig. Aliyah var þó komin í villuvandræði, með þrjár í fyrri hálfleiknum. Fyrir gestina úr Hafnarfirði var Bríet Sif Hinriksdóttir stigahæst í hálfleik með 10 stig og Helena Sverisdóttir bætti við 8 stigum.

Haukar ná svo í fyrsta skipti í leiknum að komast yfir í upphafi seinni hálfleiksins. Haukar komast mest 4 stigum framúr, en heimakonur í Fjölni eru snöggar að svara því og halda í nauma forystu sína inn í fjórða leikhlutann, 62-58. Leikurinn er svo í járnum í lokaleikhlutanum, Fjölnir oftar en ekki körfu á undan. Haukar ná þó að hanga í þeim og með góðum þrist frá Tinnu Guðrúnu Alexandersdóttur komast þær þremur stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur eru eftir af leiknum, 75-78. Hauar ná stoppi þar á eftir og Elísabeth Ýr Ægisdóttir setur annan þrist og kemur Haukum 6 stigum yfir þegar um mínúta er eftir. Eftir það fara Haukar vel að ráði sínu og ná að lokum að sigla fjögurra stiga sigur í höfn, 77-81.

Atkvæðamestar

Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest í liði Hauka í kvöld með laglega þrennu, 25 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar. Þá bætti Elísabeth Ýr Ægisdóttir við 11 stigum og 7 fráköstum.

Fyrir heimakonur í Fjölni var Aliyah Mazyck atkvæðamest með 25 stig, 15 fráköst, 7 stoðsendingar og

Hvað svo?

Þann 23. mars taka Haukar á móti Grindavík í Ólafssal, en þar áður leika þær gegn Njarðvík í undanúrslitum VÍS bikarkeppninnar komandi fimmtudag 17. mars.. Fjölnir á hinsvegar ekki leik fyrr en þremur dögum seinna, þann 26. mars gegn Grindavík í HS Oeku Höllinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)