Fyrir leik Þórsliðanna sem fram fór í íþróttahöllinni í kvöld voru án efa flestir sem hafa tippað á að meistararnir úr Þorlákshöfn myndu ganga frá vængbrotnum heimamönnum og landa öruggum sigri. En annað kom á daginn því heimamenn sem léku á þriggja erlendra leikmanna og að auki var Ragnar Ágústsson var ekki með vegna veikinda og Ólafur Snær frá vegna meiðsla.

Leikurinn í kvöld var hin besta skemmtun og Íslensku leikmenn Þórs  stigu svo sannarlega upp í kvöld og nýttu sín tækifæri svo sannarlega til hins ýtrasta. Í kvöld stigu tveir ungir leikmenn Þórs sín fyrstu skref í efstu deild þeir Bergur Ingi Óskarsson sem er 18 ára gamall og Arngrímur Alfreðsson sem er á sautjánda aldursári.

Það voru heimamenn sem skoruðu fyrstu stig leiksins sem komu utan þriggja stiga línuna og var það fyrirliðinn Kolbeinn Fannar sem setti niður fyrsta þristinn af sex sem hann setti niður í leiknum. Eftir um mínútna langan leik leiddi Þór 5:2 en þá jafnaði Davíð Arnar 5:5 með þrist. Gestirnir komust svo yfir og höfðu mest sex stiga forskot þar til að þrjár mínútur lifðuð leikhlutans en þá var jafnt á með liðunum 19:19. Gestirnir komust svo í 19:24 en okkar menn jöfnuðu áður en leikhlutinn var úti 24:24.

Gestirnir voru sterkari í öðrum leikhluta og leiddu framan af með allt að sjö stigum en forskotið varð mest í lok hans ellefu stig 44:55.

Í fyrri hálfleiks var August atkvæðamestur Þórs með 15 stig og Dúi Þór 10 og þeir Hlynur og Baldur Örn með sex stig hvor. Hjá gestunum voru þeir Luciano og Ragnar stigahæstir með 10 stig hvor og þeir Daníel Mortensen og Ronaldas með 8 stig hvor.

Þriðji leikhlutinn var afar vel leikinn af heimamönnum sem þó framan af lentu mest tólf stigum undir 46:58 en voru augljóslega ekki tilbúnir að gefast upp. Barátta heimamanna var til fyrirmyndar og þegar mínúta lifði leikhlutans var munurinn komin niður í tvö stig 68:70. Þegar um fimm sekúndur voru eftir af leikhlutanum jafnaði Róbert Orri leikinn 70:70. Þór vann leikhlutann 26:15.

Þegar lokakaflinn hófst var jafnt á með liðunum 70:70 þetta var leikur og vængbrotið lið Þórs var greinilega ekki reiðubúið að leggja árar í bát gegn meisturunum.

Gestirnir úr Þorlákshöfn reyndust sterkari á lokakaflanum en þeir þurftu svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum. Leikmenn Þórs neituðu að gefast upp en um miðja leikhlutann fékk August sina fimmtu villu en þá var kappinn komin með 21 stig. Gestirnir unnu fjórða leikhlutann með sjö stigum 18:25 og leikinn 88:95.

Sigur gestanna var sanngjarn en eins og margoft hefur komið fram í textanum þá þurftu meistararnir svo sannarlega að  hafa fyrir hlutunum. Þórsarar léku án efa sinn besta leik í vetur og eiga allir leikmenn mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna í kvöld. Meistararnir eru með ógnarsterkt lið sem skipað er m.a. fimm erlendum atvinnumönnum á meðan okkar lið er nú að einni undantekningu skipa Íslenskum leikmönnum. Eini erlendi leikmaður Þórs nú er hinn danski August Emil Haas sem í kvöld var að leika sinn fjórða leik með liðinu.

Framlag leikmanna Þórs: August 21/13/5, Kolbeinn Fannar 18/2/0, Baldur Örn 16/12/4, Dúi Þór 13/3/15, Hlynur Freyr 9/9/0, Páll Nóel 5/0/0, Róbert Orri 4/2/0 og Smári 2/0/0. Að auki spiluðu þeir Arngrímur Alfreðsson og Baldur Ingi en þeim tókst ekki að skora.

Framlag leikmanna Þórs Þ.: Luciano Massarelli 27/7/1, Glynn Watson 18/3/4, Davíð Arnar Ágústsson 11/3/1, Daniel Mortensen 11/8/6, Kyle Johnson 9/12/1, Ronaldas Rutkauskas 8/9/2, Emil Karel Einarsson 2/5/1 og Ísak Júlíus Perdue 2/0/1.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh