Eftir magnaða frammistöðu Þórs gegn Íslandsmeisturunum í síðustu umferð fengu liðsmenn Þórs ærlegan skell þegar liðið tók á móti Vestra í kvöld. Gestirnir að vestan léku við hvurn sinn fingur og höfðu fjörutíu og fjögra stiga sigur 73:117.

Fyrri hálfleikurinn var tiltölulega jafn en eftir fyrsta leikhluta leiddu gestirnir með fimm stigum 28:33 og með tíu stigum í hálfleik 46:56.

Í fyrri hálfleik virkuðu Þórsarar andlausir og ólíkir því sjálfum sér sé tekið mið af síðasta leik liðsins. Án efa bjuggust flestir við því að Þórsarar kæmu til síðar hálfleiks með öðru hugarfari og sýndu þá grimmd sem dyggði til að gera leikinn spennandi í síðari hálfleiknum.

En reyndin var önnur, gestirnir komu mjög vel gíraðir í síðari hálfleik og hreinlega tóku öll völd á vellinum og það var nánast alveg sama hvað okkar menn reyndu, ekkert féll með liðinu.

Vestri hafði betur á öllum sviðum  körfuboltans í kvöld. Tveggja stiga nýting 40% gegn 71% þriggja stiga hittni var 25% gegn 40% en Þór hafði yfir í vítanýtingu 75% gegn 73%. Þá hafði Vestri betur í fráköstum 53 gegn 35.

Framlag leikmanna Þórs: Dúi Þór 24/6/6, August Emil 18/3/3, Kolbeinn Fannar 11/3/0, Baldur Örn 7/2/1, Ólafur Snær 8/5/1, Páll Nóel 3, Róbert Orri 2/3/1, Smári Jónsson 2/2/1 og Ragnar Ágústsson 1/11/1. Að auki spiluðu þeir Hlynur Freyr, Bergur  Ingi og Thor Blöndal en þeim tókst ekki að skora.

Framlag leikmanna Vestra: Ken-Jah Bosley 27/7/3, Marko Jurica 24/7/0, Arnaldur Grímsson 22/15/1, Rubiera Alejandro 19/2/7, Hilmir Hallgrímsson 11/5/1, Hugi Hallgrímsson 6/6/4, Nemanja Knezevic 6/6/1, Krzysztof Duda 2/1/0.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Viðtöl / Guðmundur Ævar