Tindastóll tók á móti UMFK Aþenu í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld
Maddie kom heimastúlkum í 2-0 en síðan tóku gestirnir úr Aþenu yfir leikinn og náðu forystunni. Gestirnir voru að spila af skynsemi og náðu að ýta heimastúlkum út úr sínum aðgerðum. Staðan 14-18 að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir úr Aþenu héldu áfram að þjarma að heimastúlkum og voru komnar með 9 stiga forystu í hálfleik, 26-35. Sóknarleikurinn gekk illa hjá Stólastúlkum og hittnin frekar slök.
Í þriðja leikhluta náðu heimastúlkur að komast betur inn í leikinn með Maddie Sutton og Evu Rún í fararbroddi. Þristur frá Ingu Sól kom heimastúlkum svo yfir í byrjun lokaleikhlutans og leikurinn var í járnum næstu mínúturnar. Sex stig í röð komu Tindastól svo í 6 stiga forystu um miðjan leikhlutann 57-51. Gestirnir voru þó alls ekki á því að gefast upp og héldu áfram sínum leik. Tvö víti frá Maddie komu Tindastól í 5 stiga forystu þegar rúm hálf mínúta var eftir og héldu flestir á pöllunum að sigur væri í höfn. Þristur frá Violet Morrow strax í næstu sókn breytti því þó snarlega og lokasekúndurnar urðu spennandi. Víti frá Maddie kom muninum í 3 stig og gestirnir fengu svo vítaskot þegar einungis 0.6 sek voru eftir en því miður bara 2. Eina leiðin fyrir þær til að knýja fram framlengingu var að setja fyrra vítið og reyna svo að slá frákastið niður eftir klikk í því seinna og þær voru mjög nálægt því en allt kom fyrir ekki og heimastúlkur fögnuðu sigri 68-66 eftir erfiðan leik.
Maddie Sutton átti enn einn stórleikinn fyrir Tindastól, skilaði 30 stigum og 22 fráköstum. Eva Rún lék frábærlega í leikstjórnendahlutverkinu með 16 stig og 6 stoðsendingar og Inga Sól bætti 10 stigum við. Hjá gestunum var Violet Morrow atkvæðamest með 26 stig og 8 fráköst
Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna