VÍS-bikarhelgin hélt áfram á laugardagsmorgni þegar Keflavík og Stjarnan mættust í úrslitaleik 9. flokks stúlkna.

Stjarnan eru í efsta sæti deildakeppni 9. flokks með fullt hús stiga eftir 12 leiki, en Keflavík eru í öðru sæti með 3 töp. Þar af hafa tvö töp komið gegn Stjörnunni. Ljóst að tvö bestu lið landsins mætast í bikarúrslitunum.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og náðu að trufla Stjörnuna í þeirra sóknaraðgerðum. Keflavík hafði tveggja stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 12-10 og litu ágætlega út á báðum endum vallarins. Í öðrum leikhluta sneru Stjörnustúlkur leiknum hins vegar sér í vil. Kolbrún María Ármannsdóttir var afar illviðráðanleg í liði Garðbæinga og var kveikjan að því að Stjarnan vann annan leikhluta með átta stigum, 20-12, og höfðu því sex stiga forskot í hálfleik, 24-30. Kolbrún skoraði 7 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur varð svo aldrei spennandi. Stjarnan steig á bensíngjöfina og þrátt fyrir fyrirmyndarbaráttu hjá Keflvíkingum náðu þær aldrei almennilegum takti í seinni hálfleik. Svo fór að Stjarnan vann loks með 23 stigum, lokatölur 60-37 og Stjarnan því VÍS-bikarmeistari 9. flokks stúlkna árið 2022.

Best

Valið á besta leikmanni úrslitaleiksins var nokkuð einfalt. Kolbrún María Ármannsdóttir bar af í leiknum með 18 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar. Frábær leikur hjá Kolbrúnu.

Niðurstaðan

Stjarnan er VÍS-bikarmeistari í 9. flokki stúlkna, fyrsti bikartitill Stjörnunnar í kvennaflokki í körfubolta. Til hamingju Stjarnan!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)