Stjarnan lagði KR rétt í þessu í VÍS bikarúrslitaleik 10. flokks stúlkna, 32-76.

Fyrir leik

Stjarnan er í efsta sæti deildarkeppninnar með 20 stig á meðan að KR er ekki langt undan, í 3. sætinu með 16 stig. Liðin mættust síðast 11. mars og hafði Stjarnan þá sigur í spennuleik, 58-57.

Gangur leiks

Stjarnan mætir mun sterkari til leiks. Eru snöggar að byggja sér upp nokkurra stiga forystu og eru 8 stigum á undan þegar fyrsti fjórðungu er á enda, 14-22. Miklu munaði fyrir þær um framlag Kolbrúnar Maríu Ármannsdóttur á þessum fyrstu mínútum leiksins, en hún var komin með 7 stig og 3 fráköst eftir fyrsta leikhlutann. Í öðrum leikhlutanum gengur Stjarnan mikið til frá leiknum, vinna fjórðunginn 29-6 og eru 31 stigi yfir í hálfleik, 20-51.

Stigahæst fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Anna María Magnúsdóttir með 10 stig á meðan að fyrir Stjörnuna var Kolbrún María Ármannsdóttir með 13 stig.

Einstefna Stjörnunnar heldur áfram í upphafi seinni hálfleiksins. Bæta enn við forystu sína í þriðja leikhlutanum og eru 40 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 24-64. Eftirleikurinn að er virtist frekar einfaldur fyrir Stjörnuna, sem sigra leikinn að lokum með 44 stigum, 32-76.

Atkvæðamestar

Fyrir Stjörnuna var Ísold Sævarsdóttir atkvæðamest með 18 stig, 2 fráköst, 6 stoðsendingar og 8 stolna bolta. Þá bætti Kolbrún María Ármannsdóttir við 15 stigum, 10 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Fyrir KR skilaði Anna Margrét Hermannsdóttir 11 stigum, 11 fráköstum og Anna María Magnúsdóttir 13 stigum og 4 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)