Stjarnan lagði Þór í VÍS bikarúrslitaleik karla í dag í Smáranum, 93-85.

Fyrir leik

Bæði lið unnu undanúrslitaviðureignir sínar síðastliðinn miðvikudag 16. mars. Stjarnan lagði Keflavík í framlengdum leik á meðan að Þór bar sigurorð af Val.

Gangur leiks

Stjarnan tekur forystuna snemma í leiknum, eru komnir 10 stigum á undan strax eftir fimm mínútna leik. Því forskoti halda þeir svo út fyrsta leikhluta, sem endar 28-18. Líkt og í undanúrslitaleiknum gegn Keflavík var mikið ýgi sóknarlega í David Gabrovsek á þessum upphafmínútum, en hann setti 10 stig á fyrstu fimm mínútunum sem hann spilaði. Með gífurlega sterku 10-0 áhlaupi nær Þór að jafna leikinn á fyrstu þremur mínútum annars leikhlutans. Leikurinn er svo í miklu jafnvægi allt til loka fyrri hálfleiks, en þegar að liðin halda til búningsherbergja er Stjarnan skrefinu á undan, 45-42.

Stigahæstur í fyrri hálfleiknum fyrir Stjörnuna var David Gabrovsek með 19 stig á meðan að fyrir Þór var Glynn Watson kominn með 17 stig.

Stjarnan nær aftur að keyra framúr Þór í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann 23-16 og eru því 10 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 68-58. Ljóst var á þessum upphafmínútum seinni hálfleiksins að bakvörður Stjörnunnar Hilmar Smári Henningsson ætlaði að taka meira til sín, eftir að hafa tekið aðeins eitt skot í fyrri hálfleiknum, setti hann 8 stig í þriðja leikhlutanum.

Í fjórða leikhlutanum reyna Þórsarar hvað þeir geta til að vinna niður forskot Stjörnunnar, en það dettur nánast ekkert með þeim. Leikurinn helst þó innan seilingar fyrir Þór þangað til á lokmínútunum. Komast 5 stigum næst þeim í brakinu, en allt kemur fyrir ekki. Stjarnan sigrar að lokum nokkuð þægilega 93-85.

Tölfræðin lýgur ekki

Stjarnan skaut boltanum mun betur úr djúpinu í leiknum, settu niður 15 af 39, 38%, á móti aðeins 10 af 39 eða 25% hjá Þór.

Atkvæðamestir

David Gabrovsek var atkvæðamikill í liði Stjörnunnar í leiknum, skilaði 29 stigum og 7 fráköstum. Þá bætti Robert Turner við 31 stigi, 9 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Fyrir Þór var Glynn Watson atkvæðamestur með 27 stig, 8 fráköst og Luciano Masarelli var með 28 stig og 7 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)