Oft er þörf, en nú er nauðyn, að draga fram orðið þýðingarmikið. Leikur Stjörnunnar gegn Grindavík í MG-höllinni í kvöld er vægast sagt þýðingarmikill, komið er að fjórðu síðustu umferð deildarkeppninnar og liðin jöfn að stigum ásamt Stólunum í sætum 5 til 7. Stjörnuliðið hefur litið út eins og vel gerð en seinþroska manneskja í vetur og gæti mögulega sprungið nokkuð fallega út þegar alvara lífsins bankar upp á. Grindvíkingar hafa hins vegar hagað sér eins og bólufreðinn unglingur með alvarlegan athyglisbrest á köflum en þess á milli spilað af ótrúlegum krafti og gleði sem hrífur alla með sér. Gefum Kúlunni orðið…

Kúlan: Þetta verður svakalegur leikur, lofa því! Allt verður í járnum í lokin en Hinn þriðji mun klára leikinn með sínum dripp-lausu vítaskotum að lokum! Lokatölur 88-84.

Byrjunarlið

Stjarnan: Hilmar, Tommi, Turner, Hopkins, Hlynur

Breiðablik: Ivan, Óli, Naor, EC, Kiddi

Gangur leiksins

Grindvíkingar virtust allsgáðir og hressir í byrjun og settu fyrstu 5 stig leiksins. Vörn gestanna var algerlega til fyrirmyndar og Stjörnumenn voru algerlega taktlausir þegar það kom að því að eitthvað opnaðist og ekkert vildi niður. Grindjánar leiddu 5-18 um miðjan leikhlutann og 16-29 að fyrsta leikhluta loknum.

Það var meira og minna sami taktur í öðrum leikhluta. Að vísu hægðist aðeins á stigaskori gestanna og flæðið ekki alveg jafn gott sóknarmegin en á móti kom að heimamenn gátu ekki hitt hafið af bryggjusporðinum. Grindvíkingar héldu Stjörnumönnum í þægilegri fjarlægð og leiddu allan leikhlutann með í kringum 15 stigum. Þristur frá Kidda í lok fjórðungsins og flautuþristur frá meistara Óla Ól gerði það að verkum að munurinn var heil 20 stig í hálfleik, 29-49 og holan leiðinlega djúp fyrir heimamenn. Munurinn lá augljóslega í skotnýtingunni, Stjarnan með 16% í þristum og 26% í tveggja stiga, Grindavík 42% í þristum og 51% í tvistum…sem er öllu heilbrigðari tölur.

Heimamenn mættu mjög grimmir til leiks í seinni hálfleik enda ekki seinna vænna að leggja strax af stað upp úr holunni! Grindvíkingar virkuðu svolítið eins og þeir ætluðu bara að hinkra eftir því að leiktíminn yrði úti svo þeir gætu fagnað sigri, voru býsna ragir sóknarlega og loksins fór skot og skot að detta hjá heimamönnum. Um miðjan leikhlutann voru Stjörnumenn líka hálfnaðir upp úr holunni, staðan 42-52! Áfram héldu heimamenn upp úr holunni og áttu bara síðasta spölinn eftir að þriðja leikhluta loknum, staðan 59-62, enginn munur!

Það var úrslitakeppnisspenna í húsinu og klárlega í leikmönnum í fjórða leikhluta. Lítið var skorað en meira barist. Kristófer Breki setti þrist í byrjun fjórðungsins og segja má að gestirnir hafi hangið á 4-6 stiga forystu langt fram eftir leikhlutanum. Turner setti góða körfu og vítaskot að auki þegar 3 mínútur voru eftir af leiknum og minnkaði muninn aftur í 3 stig, 73-76. Einnig fékk Naor þarna sína fimmtu villu sem voru engar gleðifréttir fyrir gestina. Hálfri mínútu síðar jafnaði svo Hlynur leikinn með þristi, leikurinn jafn í fyrsta sinn síðan í stöðunni 0-0 og allt tryllt í MG-höllinni! Það er svo skemmst frá því að segja að liðin skoruðu einfaldlega ekkert meira í venjulegum leiktíma, framlenging staðreynd þó heimamenn höfðu verið undir í 37 og hálfa mínútu!

Gestirnir áttu fyrstu 3 stig framlengingar sem tölfræðilega er mikilvægt. Turner er hins vegar ekki síðri í framlengingu en í fjórða leikhluta og setti 2 víti og þrist til að jafna leikinn þegar 3 mínútur voru eftir. Þegar 42 mínútur og 30 sekúndur voru liðnar af leiknum komust heimamenn svo í fyrsta sinn yfir eftir góða körfu frá Gabrovsek undir körfunni, 83-81! Turner bætti 3 stigum við í næstu sókn, Óli svaraði fyrir sína menn með þristi strax í kjölfarið en Hlynur jafnaði það út fyrir Stjörnumenn… EN EC svaraði því jafnharðan, staðan 89-87! Svakalegur leikur í gangi en allt tekur þó enda, þrátt fyrir góða frammistöðu Kúlunnar að þessu sinni var það Hlynur nokkur Bæringsson, ekki Hinn þriðji, sem fékk tækifæri á því að klára leikinn á línunni þegar 14 sekúndur lifðu leiks – og það gerði hann! Lokatölur 91-87 í algerlega frábærum leik…og hugsið ykkur hvað þeir eiga eftir að verða margir svona á næstu vikum!

Menn leiksins

Oft hafa sigrar Stjörnumanna verið miklir liðssigrar en að þessu sinni stóðu 3 menn áberandi upp úr. Fyrirliðinn Hlynur var algerlega frábær í kvöld, setti 18 stig, tók 14 fráköst og gaf 8 stoðsendingar! Þar að auki spilaði hann grjótharða vörn gegn Ivan, ekki síst í síðari hálfleik. Turner var samur við sig og var bestur í lokin, setti 31 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Gabrovsek er svo gott dæmi um erlendan leikmann sem öll lið myndu vilja hafa í sínum röðum, þvílík barátta í gaurnum! Hann setti líka 27 stig og tók 3 fráköst.

Kjarninn

Stjörnuliðið virðist vera að þroskast í jákvæða átt…hægt en örugglega! Eins og fram kemur í viðtali við Arnar Guðjóns eftir leik myndi hann kannski helst vilja þroska úr liðinu þetta holublæti þess, það er aldrei leikplanið að lenda 20 stigum undir í fyrri hálfleik! En það segir samt heilmikið um liðið að geta komið til baka, baráttan til fyrirmyndar og trúin á að geta sigrað að lokum er sannarlega til staðar. Helsta áhyggjuefnið er kannski lítið framlag margra leikmanna í kvöld, þó ekki síst frá Hopkins sem hitti bara ekki neitt!

Grindvíkingar minntu nokkuð á Blika í þessu húsi í lok síðasta árs. Liðið var 20 stigum yfir og sigurinn í augsýn en svo molnaði einhvern veginn undan því. Þó var það einkum þriðji leikhlutinn sem var afar vondur hjá liðinu, allt var í járnum allan fjórða leikhlutann og aðeins spurning um hvort liðið myndi setja stóru skotin. Nýráðinn þjálfari liðsins, Sverrir Þór, mun vafalaust gera sitt til að það verði Grindvíkingar sem setja þau í næstu leikjum.

Tölfræði leiks