Blikar tókust á við Njarðvíkinga á heimavelli sínum í 18. umferð Subway-deildarinnar í kvöld. Gestirnir úr Gullborginni eru engin lömb að leika sér við, tylla sér á topp deildarinnar sigri þeir í kvöld og hafa unnið síðustu 5 leiki sína á afar sannfærandi máta. Kópavogspiltar hafa einnig verið á flottu skriði á heimavelli, unnið síðustu 5 leiki í Smáranum…og suma stórt! Síðustu 2 leikir Blika hafa hins vegar verið á útivelli á móti toppliðum Keflavíkur og Þórs Þ. þar sem Blikar gerðu sig aldrei líklega. En hvernig fer í kvöld?  

Kúlan: ,,Blikar munu skora böns…en Njarðvík meiri böns! 107-118 sigur gestanna þó leikurinn verði dæmigerður Blikaleikur…eins og allir Blikaleikir á tímabilinu.“

Byrjunarlið

Breiðablik: Hilmar, Prescott, Everage, Danero, Árni

Njarðvík: Basile, Richotti, Veigar, Haukur, Mario

Gangur leiksins

Haukur Helgi var greinilega búinn að hrista mesta covid-ið úr sér og leiddi sína menn framúr með þremur þristum. Staðan var 14-21 eftir þann þriðja frá Hauki en að fyrsta leikhluta loknum var staðan 25-30.

Það kannski orðinn svolítið þreyttur söngur að tala um varnarleysi Blika en á köflum átti undirritaður erfitt með að skilja af hverju Njarðvíkingar voru ekki komnir 15+ stigum yfir. Að vísu leiddu þeir áfram í leiknum og smátt og smátt jókst forskotið. Eins og oft áður gekk á köflum ágætlega sóknarlega hjá Blikum, hæð og styrkur skilaði stundum stigum fyrir Njarðvík en leiddi á móti til þess hinum megin á vellinum að Blikar svöruðu um hæl með gegnumbroti eða þristi. Forskot gestanna silaðist upp í 13 stig áður en blásið var til hálfleiks, staðan 43-56, og fátt benti til þess að hlutirnir myndu breytast heimamönnum í vil í þeim síðari. Benda má á að þriggja stiga nýting heimamanna var aðeins 21% á móti 31% hjá Njarðvík og mögulega einhver von um að sú tölfræði myndi breytast í síðari hálfleik.

Það var svolítið dæmigert fyrir leikinn og kannski Blikaliðið í vetur að Mario opnaði seinni hálfleik með því að skora undir körfunni með Hilmar Péturs á bakinu. Slíkt var nokkuð algeng sjón í kvöld og það voru vafalaust margir vitringar búnir að afskrifa heimamenn strax í þriðja leikhlutanum. Auk þess kunna Njarðvíkingar alveg líka að skjóta þristum, Richotti setti tvo í röð um miðjan leikhlutann, kom sínum mönnum í 52-69 og Pétur tók leikhlé til að reyna að blása hugrekki í sína menn. Munurinn minnkaði lítið fram að fjórðungaskiptum en þó færðist meira líf í leikinn og Sigurður Pétursson átti svaðalegt varið skot sem endaði með þristi hinum megin nokkrum sekúndum síðar! Staðan eftir þrjá 68-82, þannig séð sama staða og í hálfleik.

Það er alltaf góð hugmynd að hressa upp á þriggja stiga skotnýtingu í fjórða leikhluta og það gerðu Blikar í kvöld! Everage reið á vaðið og Árni Elmar fylgdi því fordæmi skömmu síðar og minnkaði muninn í 78-84 og mikið meira en nóg eftir eða 7 og hálf mínúta! Haukur Helgi slökkti tímabundið á tónlistinni með því að svara hinum megin en þá rann æði á Danero Thomas. Hann henti þremur þristum niður í röð og þegar 4:28 voru eftir leiddu heimamenn allt í einu 92-91! Allt var í járnum eftir það og þegar 9 sekúndur voru eftir var staðan 100-98 en gestirnir með boltann. Booker fékk þá dæmda á sig villu sem verður að kallast heimskuleg og Mario jafnaði leikinn á línunni, ískaldur! Njarðvíkingar stálu svo boltanum en náðu ekki að skora, framlenging í hinni fögru stöðu 100-100.

Haukur hóf framlenginguna eins og leikinn og henti niður þristi. Heimamenn létu það ekkert á sig fá og þegar 1:30 var eftir var enn jafnt, 113-113. Basile gerði sig svo líklegan til að verða hetja kvöldsins með þristi þegar um 50 sekúndur voru eftir en Danero stal þrumunni og svaraði í sömu mynt og fékk víti að auki! Vítið vildi hins vegar ekki niður og hetja kvöldsins reyndist vera 8. eða 9. maður af bekk Njarðvíkinga – eða hvað það er nákvæmlega – Maciek Baginski! Hann smellti þessu niður eins og hann hafi verið sjóðandi allan leikinn (hann setti 6 stig á 14 mínútum eða svo) og nú tókst heimamönnum ekki að svara. Basile bætti einu stigi við á línunni og 116-120 sigur Njarðvíkinga staðreynd.

Menn leiksins

Það er ekki annað hægt en að tilnefna leikmann úr tapliðinu sem mann leiksins. Danero Thomas var sjóðandi í kvöld, setti 37 stig, setti 9 þrista í 14 skotum, tók 15 fráköst og var nánast ómissandi varnarlega undir körfunni. Frábær leikur hjá honum!

Hjá Njarðvík var hins vegar dreifingin algerlega til fyrirmyndar, 7 leikmenn skoruðu vel yfir 10 stig. Það þykir gjarnan gæðamerki á liðum þegar svo er, enda fór svo að liðið tók stigin með sér heim. Maciek er ekki einn af þessum 7, en setti samt mikilvægustu körfu leiksins!

Kjarninn

Enn og aftur þurfa Blikar að sætta sig við tap í spennuleik. En það er samt sem áður varnarleikur liðsins sem bara verður að minnast á hérna í kjarnanum. Lið sem ítrekað lendir með bakvörð gegn miðherja undir körfunni, einfaldlega vegna þess að hæð er af skornum skammti í liðinu, á ekki að eiga mikinn séns! Sveinbjörn var ekki með í kvöld sem gerði ástandið enn verra. Samt voru Blikar hársbreidd frá sigri og voru í raun klaufar að landa stigunum ekki í kvöld.

Njarðvíkingar eru með svakalega breiðan og öflugan hóp, ekki að það séu nýjar fréttir svo sem. Það kristallaðist í kvöld í þeirri staðreynd að Maciek var sá sem setti mikilvægustu stigin í lok framlengingar. Kannski er það einmitt breiddin sem mun gera gæfumuninn fyrir liðið í úrslitakeppninni. Við skulum þó ekki fara framúr okkur, liðið situr vissulega í efsta sæti og hefur það í sínum höndum að enda þar. Enn eru nokkrir leikir eftir af deildarkeppninni og við skulum njóta þeirra áður en kemur að aðalréttinum!

Tölfræði leiks

Breiðablik: Danero Thomas 37/15 fráköst, Everage Lee Richardson 34/7 fráköst, Samuel Prescott Jr. 22/9 fráköst, Hilmar Pétursson 13/7 fráköst, Árni Elmar Hrafnsson 6, Frank Aron Booker 3/4 fráköst, Sigurður Pétursson 1, Arnar Hauksson 0, Hákon Helgi Hallgrímsson 0, Veigar Elí Grétarsson 0, Sölvi Ólason 0, Hjalti Steinn Jóhannsson 0.


Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 22/9 fráköst, Dedrick Deon Basile 20/6 fráköst/8 stoðsendingar/7 stolnir, Fotios Lampropoulos 18/14 fráköst, Mario Matasovic 17/9 fráköst/3 varin skot, Veigar Páll Alexandersson 13/8 fráköst, Nicolas Richotti 12/4 fráköst/6 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 12, Maciek Stanislav Baginski 6, Ólafur Helgi Jónsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Jan Baginski 0, Elías Bjarki Pálsson 0.