Njarðvík og Breiðablik mættust í Subwaydeild kvenna í kvöld þar sem Njarðvíkingar kvöddu fjögurra leikja eyðimerkurgöngu í deildarkeppninni með 82-55 sigri á Blikum.

Aliyah Collier gerði 17 stig og tók 18 fráköst hjá Njarðvík en Anna Soffía og Ísabella Ósk voru báðar með 14 stig í liði Blika.

Blikar gerðu vel í fyrri hálfleik og léku Njarðvíkinga hafa vel fyrir hlutunum en Njarðvík leiddi 39-31 í hálfleik.

Í þriðja leikhluta stungu heimakonur af, unnu þriðja 27-12 og þar með var björninn unninn. Lokatölur reyndust 82-55 og Njarðvíkingar með félagsmet þessa leiktíðina þar sem þær skoruðu úr 13 þristum í leiknum.

Blikar hafa auðvitað fengið sinn skell með því brasi sem varð í kringum bandarískan leikmann þeirra en hafa undanfarið sýnt í sér vígtennurnar og verður einkar fróðlegt að sjá til þeirra á komandi tímabilum. Næstu leikir Blika eru gegn Keflavík og Haukum og þar með lýkur Subwaydeildinni hjá þeim þessa vertíðina.

Njarðvíkingar að sama skapi eiga bara einn leik eftir í deildinni og það er grannaglíma gegn Keflavík í Blue-höllinni þann 30. mars næstkomandi.

Tölfræði leiks