KR lagði Fjölni í kvöld í úrslitum VÍS bikarkeppni unglingaflokks 2022, 97-102.

Fyrir leik

KR er í efsta sæti deildarkeppni unglingaflokks með 20 stig. Fjölnir þó ekki langt undan í 3. sætinu með 16 stig og leik til góða á KR.

Gangur leiks

KR náði að vera skrefinu á undan í upphafi á þessum fjöruga leik. Gífurlegur hraði á liðunum á upphafsmínútunum og mikið skorað. Munurinn 3 stig eftir fyrsta fjórðung, 30-33. Í öðrum leikhlutanum hægist eilítið á leiknum. Fjölnir nær að vera skrefinu á undan lungann úr fjórðungnum, en á lokamínútu hálfleiksins tekst KR nánast að loka gatinu. Munurinn eitt stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 54-53.

Stigahæstur Fjölnisdrengja í fyrri hálfleiknum var Brynjar Kári Gunnarsson með 14 stig á meðan að Veigar Áki Hlynsson var kominn með 16 stig fyrir KR.

Mikið jafnræði er á með liðunum í upphafi seinni hálfleiksins. Undir lok þriðja fjórðungsins skiptast liðin í nokkur skipti á forystunni, en fyrir lokafjórðunginn er Fjölnir enn einu stigi yfir, 78-77. Með góðum kafla um miðjan fjórða leikhlutann kemst KR 8 stigum yfir, 90-98. Fjölnir nær þó að krafsa sig til baka og er munurinn aðeins 3 stig þegar rúm mínúta er eftir, 97-100. Fjölnir fær tvö tækifæri til þess að minnka muninn enn frekar eða jafna leikinn, en allt kemur fyrir ekki. Með rúmar 20 sekúndur eftir af leiknum kemur Veigar Áki Hlynsson KR svo í 5 stiga forystu, 97-102. Kr nær svo í annað stopp og siglir að lokum sterkum 5 stiga, 97-102 sigur í höfn.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir fyrir KR í leiknum voru Almar Orri Atlason með 31 stig, 7 fráköst, Þorvaldur Orri Árnason með 23 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og Veiga Áki Hlynsson með 23 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar.

Fyrir Fjölni var það Ólafur Ingi Styrmisson sem dró vagninn með 17 stigum, 11 fráköstum og 4 stoðsendingum. Þá bætti Brynjar Kári Gunnarsson við 22 stigum og 3 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)