KR lagði Njarðvík í kvöld í Subway deild karla, 90-125. Eftir leikinn er Njarðvík í 2. sæti deildarinnar með 26 stig á meðan að KR er í 8. sætinu með 18 stig.

Fyrir leik

Í fyrri umferð deildarinnar hafði KR 16 stiga sigur á Njarðvík á Meistaravöllum, 91-75.

Í lið KR vantaði Björn Kristjánsson sem var frá vegna meiðsla og Isaiah Menderson sem var ekki löglegur með liðinu í þessum frestaða leik, en einnig vantaði einhverja minni spámenn, þar sem að liðið var með aðeins níu á skýrslu í kvöld.

Gangur leiks

Gestirnir úr Vesturbænum byrjuðu leik kvöldsins mun betur en heimamenn. Vinna fyrsta leikhlutann 18-30, þar sem að Brynjar Þór Björnsson var sjóðandi heitur, með 11 stig á tæpum 7 mínútum spiluðum í fyrsta fjórðung. KR heldur fætinum svo á bensíngjöfinni í öðrum leikhlutanum, fara mest með forystu sína í 22 stig í öðrum leikhlutanum, en staðan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er 40-62.

Undir lok fyrri hálfleiksins fór leikmaður Njarðvíkur Haukur Helgi Pálsson meiddur af velli. Litlar fréttir voru af því hvers eðlis meiðslin voru, en hann fór beint inn í klefa og tók ekki frekari þátt í leiknum.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Mario Matasovic með 10 stig á meðan að Brynjar Þór Björnsson dró vagninn fyrir KR með 14 stigum.

KR-ingar lát kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins, gjörsamlega slátra þriðja leikhlutanum og eru 36 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 60-96. Fjórði leikhlutinn var svo meira en minna bara í ruslmínútum. KR sigur að lokum, mjög svo öruggur, 90-125.

Tölfræðin lýgur ekki

KR skaut 15 af 25, 60% fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum á móti aðeins 12 af 34, 35% hjá Njarðvík.

Atkvæðamestir

Carl Lindbom var atkvæðamestur í liði KR með 19 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá bætti Adama Darboe við 22 stigum og 11 stoðsendingum.

Fyrir heimamenn í Njarðvík var það Maciek Baginski sem dró vagninn með 18 stigum og Dedrick Basile honum næstur með 14 stigum og 9 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik eftir VÍS bikarúrslitin. Þann 24. mars tekur KR á móti Íslandsmeisturum Þórs í Vesturbænum á meðan að Njarðvík heimsækir Stjörnuna í MGH.

Tölfræði leiks