Í upphafi leiktíðar var það mat margra að lið Keflvíkinga í Subwaydeild karla ætti erfitt uppdráttar þrátt fyrir að tapa aðeins tveimur af 11 leikjum – á móti toppliðunum tveimur eins og taflan sýnir í dag. Keflavík skoraði samt 108,7 stig per 100 sóknir (fjórða besta í deildinni) í þessum leikjum fyrir áramót og fékk á sig 100,2 stig (allra besta í deildinni). Það má því færa rök fyrir því að varnarleikur liðsins hafi átt stóran þátt í árangrinum fram að áramótum.

Aðra sögu er hins vegar að segja eftir áramót. Keflavík hefur unnið fjóra og tapað fjórum leikjum það sem af er ári. Skilvirknin í sóknarleiknum hefur aukist um 4 stig per 100 sóknir en það er í takt við aukningu á skilvirkni deildarinnar í heild (+4,5). Skilvirknin í varnarleiknum hefur hins vegar dregist umtalsvert saman og fá Keflvíkingar nú á sig 110,1 stig andstæðinga per 100 sóknir eða +9,9 frá áramótum.

Þennan viðsnúning má líkast til hengja á þá staðreynd að umtalsverðar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í desember. David Okeke meiddist, Darius Tarvydas bætist við, CJ Burks fer heim og Mustapha Heron kemur í staðinn.

David Okeke

Með hjálp liðsuppstillingargagna (e. lineup data) frá InStat tók ég saman hvernig Keflavík hefur verið að spila með ákveðna leikmenn inni á vellinum og einnig hvernig liðið hefur spilað með þá á bekknum. Ég kannaði aðeins þá leiki sem umræddir leikmenn spiluðu til þess að skekkja ekki niðustöðurnar með gögnum úr leikjum sem þeir hefðu ekki getað haft áhrif á. Með þessum upplýsingum gat ég reiknað út skilvirkni liðsins í sókn og vörn þegar ákveðnir leikmenn spila.

Taflan hér að neðan sýnir samanlögð plús/mínus áhrif leikmanns á liðið meðan hann spilar og meðan hann situr á bekknum. Jákvætt gildi í sóknartölfræði sýnir að liðið spilar betur með hann á vellinum og jákvætt gildi í varnartölfræði sýnir að andstæðingurinn spilar verr þegar hann er á vellinum. Neikvæð gildi sýna hið gagnstæða.

Smellið á myndina fyrir stærri og skýrari útgáfu

Okeke var límið í varnarleik Keflavíkur fyrir áramót. Skotnýting andstæðinga var 47,4% eFG% á meðan hann var inn á en hoppaði upp í 53,9% þegar hann settist á bekkinn. Hvers vegna? Bæði ógnaði hann skottilraunum í teignum og mögulega gátu aðrir varnarmenn spilað stífari vörn við þriggja stiga línuna þegar þeir vissu af honum og Milka í teignum. Þriggja stiga nýting andstæðinga Keflavíkur var 32,8% eða nálægt meðaltali deildarinnar fyrir áramót en er nú 39,3% sem er það hæsta í deildinni. Þriggja stiga nýtingin í deildinni er einnig umtalsvert betri eftir áramót eða 36,6% heldur en fyrir eða 32,9%.

Dominykas Milka hefur ekki verið að spila sinn besta leik á þessari leiktíð og virðist ekki nema svipur hjá sjón frá síðustu leiktíð. Milka er með neikvæð gildi í bæði vörn og sókn og nettógildi upp á -5,78 stig per 100 sóknir. Mínusinn er enn meiri hjá Milka eftir að Okeke meiðist eða -7,61 í sókn, -5,26 í vörn og nettó -12,87 stig per 100 sóknir.

Mustapha Heron hefur átt erfitt uppdráttar frá því hann kom til landsins og hefur – ef marka má þessar upplýsingar – ekki náð að fylla skarð CJ Burks nægilega vel. Skotnýting liðsins er 49,3% eFG% á meðan hann spilar en 64,7% á meðan hann situr. Skotnýting andstæðinga Keflavíkur stekkur einnig upp í 61,4% með hann á vellinum en lækkar í 52,2% með hann á bekknum. Önnur gildi fjórþáttagreiningarinnar eru hins vegar mjög hagstæð fyrir utan skotnýtingu. Heron hefur hins vegar spilað fáa leiki og erfitt er að meta stöðuna með svo lítið úrtak.

Darius Tarvydas

Mikilvægasti leikmaður Keflavíkur miðað við þessar upplýsingar er Darius Tarvydas með nettóáhrif upp +24,15 stig per 100 sóknir og vegur varnarleikurinn einna þyngst þar eða +16,46. Tarvydas er sjálfur að skjóta 47,2% í þriggja stiga skotum en liðið er að skjóta 55,3% eFG% á meðan hann er á vellinum.

Á myndinni hér að neðan sjáum við nettóáhrif hvers leikmanns á helstu tölfræðiþætti liðsins og hafa þessar tölur verið leiðréttar fyrir fjölda sókna (þ.e. reiknaðar upp miðað við 80 sóknir sem er u.þ.b. sögulegt meðal-pace deildarinnar til þess að leiðrétta mismun á leiktíma). Tökum sem dæmi tveggja stiga skot að Keflavík skorar 21,9 tveggja stiga körfur þegar Hörður Axel er á vellinum og andstæðingarnir 19,0 eða nettó 2,9. Keflavík skorar hins vegar 20,2 og andstæðingarnir 19,2 með hann á bekknum eða -1,0 þar sem það er óhagstætt fyrir hans tölfræði að munurinn haldist á meðan hann situr. Samtals er hann nettó 1,9 í tveggja stiga körfum.

Smellið á myndina fyrir stærri og skýrari útgáfu