Keflavík lagði KR eftir framlengdan leik í kvöld í Subway deild karla, 110-106. Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 26 stig á meðan að KR er í 9. sætinu með 16 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu í tvígang áður mæst í deild og bikar í vetur. Keflavík haft sigur í báðum leikjum, nokkuð örugglega í deildarleiknum í Vesturbænum, en í spennuleik á Sunnubrautinni í VÍS bikarkeppninni.

í bæði lið vantaði leikmenn í kvöld. KR var án Björns Kristjánssonar og í hóp Keflavíkur vantaði þá Þröst Leó Jóhannsson og Ágúst Orra Ágústsson. Gleðiefni þó fyrir Keflavík sem fékk aftur bakvörðinn Reggie Dupree fyrir leik kvöldsins, en eftir að hafa spilað fjölmörg ár fyrir félagið hafði hann ekkert verið með á þessu tímabili.

Gangur leiks

Heimamenn í Keflavík byrjuðu leikinn eilítið betur. Ná að vera yfir nánast frá fyrstu mínútu, mest 10 stigum í fyrsta leikhlutanum, en staðan fyrir annan er 23-15. Leikurinn er svo nokkuð jafn og spennandi í öðrum leikhlutanum. Ekki bara hanga gestirnir í heimamönnum, heldur hóta þeir því í nokkur skipti að taka forystuna. Allt kemur þó fyrir ekki og með mikilli baráttu á lokasekúndum fyrri hálfleiksins nær Keflavík að fara með 8 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 49-41.

Stigahæstur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Darius Tarvydas með 13 stig á meðan að fyrir gestina var Þorvaldur Orri Árnason með 10 stig.

Keflavík nær áfram að vera skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins. Leiða mest allan þriðja leikhlutann, en þökk sé nokkrum góðum stoppum og að lokum flautuþrist frá Adama Darboe nær KR að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum í lok fjórðungsins, 71-72. Í þeim fjórða skiptast liðin á snöggum áhlaupum þar sem að aldrei munar þó meira en körfu á þeim.

Þegar um mínúta er eftir jafnar Valur Orri Valsson leikinn fyrir Keflavík, 92-92. Keflavík nær svo stoppi og Darius Tarvydas setur annan þrist fyrir þá þegar að 25 sekúndur eru eftir, 95-92. í næstu sókn á eftir setur Þorvaldur Orri 2 stig af gjafalínunni fyrir KR, 95-94. Keflavík beint sendir á línuna þar sem að Darius Tarvydas etur 2 fyrir þá, 97-94 og 20 sekúndur eftir. Með góðri leikfléttu og enn betra skoti nær Carl Lindbom að jafna leikinn fyrir KR úr djúpinu með um 5 sekúndur eftir af klukkunni.

Í lokasókn Keflavíkur í venjulegum leiktíma fær Dominykas Milka ágætis skot til þess að vinna leikinn, en allt kemur fyrir ekki. Leikurinn fer í framlengingu.

Í framlengingunni skiptast liðin á forystunni í fjölmörg skipti. Með víti frá Darius Tarvydas þegar 50 sekúndur eru eftir er leikurinn jafn, 106-106. Keflavík nær þá góðu stoppi og Jaka Brodnik kemur þeim yfir, en þá eru um 15 sekúndur eftir. Aftur nær Keflavík stoppi, brotið er á Jaka, sem setur niður tvö víti og ísar leikinn, 110-106.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík passaði boltann mun betur en gestirnir í kvöld, tapa aðeins 10 boltum á móti 19 töpuðum hjá KR.

Atkvæðamestir

Dominykas Milka var atkvæðamestur í liði Keflavíkur í kvöld með 24 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá bætti Darius Tarvydas við 27 stigum, 9 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Fyrir KR var Þorvaldur Orri Árnason með 23 stig, 6 fráköst og Adama Darboe með 17 stig og 11 stoðsendingar

Hvað svo?

KR á leik næst komandi mánudag 14. mars gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni. Næsti leikur Keflavíkur er komandi miðvikudag 16. mars gegn Stjörnunni í undanúrslitum VÍS bikarkeppninnar.

Tölfræði leiks