Íslandsmeistarar Vals lögðu bikarmeistara Hauka í kvöld í Subway deild kvenna, 73-65. Eftir leikinn er Valur í 2. sæti deildarinnar með 30 stig á meðan að Haukar eru sæti neðar með 28 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu í þrígang mæst í deildinni fyrir leik kvöldsins. Hafði Valur sigur í fyrstu tveimur leikjunum, en Haukar þeim síðasta nú 9. febrúar, 97-71 í Ólafssal.

Gangur leiks

Eftir að hafa byrjað betur gefa gestirnir úr Hafnarfirði eftir í upphafi fyrsta leikhlutans, en nánast jafnt er eftir fyrsta fjórðung, 15-14. Aftur ná Haukar að vera skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum. Ná mest 8 stiga forystu í fyrri hálfleiknum, en eru 7 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 25-32.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Ameryst Alston með 8 stig á meðan að fyrir Hauka var Bríet Sif Hinriksdóttir komin með 10 stig.

Heimakonur í Val ná svo að snúa taflinu sér í vil í upphafi seinni hálfleiksins. Fá nokkra þrista til að detta og 21 þriðja leikhluta stig frá Ameryst Alston og eru komnar með 9 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 55-46. Í þeim fjórða ná heimakonur að halda fengnum hlut og sigra leikinn að lokum með 8 stigum, 73-65.

Atkvæðamestar

Ameryst Alston var best í liði Vals í kvöld með 36 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Henni næst var Ásta Júlía Grímsdóttir með 5 stig, 12 fráköst og 3 stoðsendingar.

Fyrir Hauka var Helena Sverisdóttir atkvæðamest með 22 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Þá bætti Bríet Sif Hinriksdóttir við 12 stigum.

Hvað svo?

Bæði eiga liðin leik í lokaumferð deildarkeppninnar komandi miðvikudag 30. mars. Íslandsmeistarar Vals heimsækja Fjölni í Dalhús og Haukar fá Breiðablik í heimsókn í Ólafssal.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt/Márus Björgvin)