ÍR lagði KR í framlengdum leik í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í fyrstu deild kvenna, 95-91. ÍR því komið með yfirhöndina í einvíginu, 1-0, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í lokaúrslit um sæti í Subway deildinni.

Fyrir leik

Í deildinni mættust liðin í tvígang í vetur og skiptu með sér sigrum. KR vann fyrri leik vetrarins í Hellinum í Breiðholti og ÍR þann seinni á Meistaravöllum. Báðir voru leikir deildarinnar hin besta skemmtun, en báðir unnust með þremur stigum.

Í lið ÍR vantaði í kvöld stigahæsta leikmann liðsins Irenu Sól Jónsdóttur, en hún hefur verið með 18 stig meðaltali í leik fyrir þær í vetur. Einnig vantaði stóra pósta hjá KR þar sem Fjóla Gunnarsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir voru báðar fjarri góðu gamni.

Gangur leiks

Heimakonur í ÍR ná forystunni á upphafsmínútunum. Eru 6 stigum á undan eftir aðeins nokkurra mínútna leik, en gestirnir úr Vesturbænum eru þó nokkuð fljótar að vinna það niður og komast yfir sjálfar. Aftur nær ÍR forystunni undir lok fyrsta fjórðungsins og er staðan 21-17 fyrir annan. Miklu munaði um framlag Nínu Kristjánsdóttur fyrir ÍR í þessum fyrsta leikhluta, en hún var komin með 6 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar á fyrstu 10 mínútunum. Í öðrum leikhlutanum var það svo komið að KR að taka forystuna, meðal annars með nokkrum góðum körfum frá Perlu Jóhannsdóttur og Önnu Maríu Magnúsdóttur ná þær að sigla mest 8 stigum framúr heimakonum. Munurinn þó aðeins 4 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 37-41.

Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá báðum liðum í fyrri hálfleiknum. Fyrir KR voru Anna María og Chelsea komnar með 3 villur, líkt og Gladiana og Rebekka Rut hjá ÍR

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Gladiana Aidaly með 9 stig á meðan að Perla Jóhannsdóttir var komin með 12 stig fyrir KR.

Með laglegu áhlaupi ná heimakonur í ÍR að snúa taflinu sér í vil á fyrstu andartökum seinni hálfleiksins. Leikurinn er svo eiginlega í járnum út þriðja leikhlutann, en þegar hann er á enda munar aðeins einu stigi á liðunum, 62-61 fyrir ÍR. Áfram er leikurinn svo bara stál í stál í upphafi fjórða leikhlutans, þar sem aldrei munar meira en einni körfu á liðunum fyrstu fimm mínútur fjórðungsins. Þegar um tvær mínútur eru eftir nær ÍR aðeins að slíta sig frá gestunum. Komast 5 stigum yfir með laglegum þrist af spjaldinu frá Eddu Karlsdóttur, 78-73. Með góðu áhlaupi í lokin og að lokum ótrúlegum þrist frá Chelsea Jennings nær KR að kría út framlengingu, 82-82.

Þrátt fyrir að hafa misst lykilleikmenn sína, Nínu Kristjánsdóttur og Aníku Hjálmarsdóttur útaf vellinum með fimm villur nær ÍR að hafa yfirhöndina í framlengingunni. Undir lokin má þó ekki miklu muna á liðunum, en á lokarandartökum leiksins ná Gladiana og Edda að tryggja heimakonum sigurinn 95-91.

Atkvæðamestar

Gladiana Aidaly var atkvæðamest fyrir ÍR í leiknum með 29 stig, 12 fráköst og henni næst var Aníka Hjálmarsdóttir með 15 stig og 11 fráköst.

Fyrir KR var Hulda Bergsteinsdóttir atkvæðamest með 23 stig og 7 fráköst. Þá bætti Chelsea Jennings við 16 stigum og 18 fráköstum.

Hvað svo?

Annar leikur einvígis liðanna er komandi föstudag 25. mars, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í úrslitaeinvígið um sæti í Subway deildinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt/Atli Mar)