ÍR lagði KR í kvöld í öðrum leik undanúrslitaeinvígis liðanna í fyrstu deild kvenna. ÍR er því komið með yfirhöndina í einvíginu 2-0 og geta bókað farseðil sinn í úrslitin með sigri komandi mánudag 28. mars.

Fyrir leik

Liðin mættust í tvígang á tímabilinu og skiptu með sér sigrum, en báðir unnust leikirnir með þremur stigum. Fyrsta leik þessa undanúrslitaeinvígis vann ÍR eftir framlengingu í Hellinum, 95-91 og leiddu því fyrir leik kvöldsins 1-0.

Líkt og í fyrsta leiknum vantaði ÍR stigahæsta leikmann liðsins Irenu Sól Jónsdóttur, en hún hefur verið með 18 stig meðaltali í leik fyrir þær í vetur ná meðan að KR hafði fengið stóra pósta aftur inn í liðið sem ekki voru með í fyrsta leik í þeim Fjólu Gunnarsdóttur og Ragnhildi Kristinsdóttur.

Gangur leiks

Heimakonur í KR voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og eru 7 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 26-19. Ljóst á þessum upphafmínútum hvað bandarískum leikmanni KR Chelsea Jennings leið betur hér á heimavelli samanborið við síðasta leik í Hellinum, en hún setti 10 stig í fyrsta fjórðungnum. Með miklum herkjum tekst heimakonum að halda í forskot sitt í öðrum leikhlutanum, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er þær 2 stigum yfir, 47-45.

Stigahæst fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Chelsea Jennings með 16 stig á meðan að fyrir ÍR var Gladiana Aidaly Jimenez einnig komin með 16 stig.

ÍR mæta svo mun betur stemdar til leiks í seinni hálfleikinn með 2-11 áhlaupi, 49-56. Heimakonur í KR ná að stöðva blæðinguna, en gengur heldur illa í framhaldinu sóknarlega. KR tapa leikhlutanum 12-20 og eru því komnar 6 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 59-65. Áhyggjuefni var að Gladiana fór meidd af velli í lok þriðja leikhlutans, en hún hafði verið frábær fyrir þær fram að því í leiknum.

ÍR nær að halda í forskot sitt í upphafi fjórða leikhlutans, eru ennþá 8 stigum yfir þegar að fimm mínútur voru eftir af leiknum, 65-73. Stigahæsti leikmaður KR Chelsea Jennings fær fljótlega eftir það sína fimmtu villu og er því útlokuð frá leiknum, en hjá ÍR situr einnig stigahæsti leikmaður þeirra Gladiana Aidaly. Á þessum lokamínútum reynir KR hvað þær geta til þess að vinna á forskoti gestanna, en allt kemur fyrir ekki. Næst komast þær 5 stigum frá þeim í stöðunni 76-81, en að lokum vinnur ÍR leikinn nokkuð örugglega, 76-84.

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR skaut boltanum mun betur úr djúpinu heldur en heimakonur í kvöld. Setja niður 7 af 21 eða 33% á móti aðeins 4 af 20 hjá KR eða 20%.

Atkvæðamestar

Chelsea Jennings var atkvæðamest í liði KR í kvöld með 22 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá bætti Hulda Ósk Bergsteinsdóttir við 15 stigum og 5 fráköstum.

Fyrir gestina úr Breiðholti var það Gladiana Aidaly sem dró vagninn með 22 stigum, 6 fráköstum og Sólrún Sæmundsdóttir henni næst með 20 stig og 6 fráköst.

Hvað svo?

Þriðji leikur undanúrslitaeinvígis liðanna er komandi mánudag 28. mars kl. 18:00 í Hellinum í Breiðholti.

Tölfræði leiks