Skallagrímur og Hrunamenn áttust við í Borgarnesi í leik í 1. deild karla. Liðin eru hlið við hlið í  töflunni, fyrir ofan Hamar og ÍA og neðan Selfoss og Fjölni. Þrjá leikmenn sem oftast eru í leikmannahópi Hrunamanna vantaði í hóp þeirra í þessum leik en þeir höfðu endurheimt miðherja sinn, Karlo Lebo, en meiðsli hafa haldið honum frá keppni undanfarið. Ólafur Þorri í liði Skallagríms tók út leikbann eftir uppákomu í leik Skallagríms og Hattar í síðustu umferð. Þá munar um hann.

Fyrirfram mátti búast við jöfnum leik þótt væntingum um mikil leikgæði hafi sjálfsagt mátt stilla í hóf frá liðum í neðri hluta 1. deildarinnar. Liðin buðu samt upp á fínan leik og jafn var hann alveg fram undir miðjan 4. leikhlutann þegar gestirnir úr Hrunamannahreppi náðu forystunni og létu hana ekki af hendi.

Skallagrímsmenn lögðu mikuð upp úr því að trufla Clayton Ladine við að stjórna spili gestanna og halda Kent Hanson frá því að geta ráðist á körfuna. Clayton var stigalaus eftir fyrsta fjórðung og Kent hafði þá aðeins skorað 2 stig. Karlo Lebo fór á póstinn og þaðan komu flest stig gestanna framan af leiknum. Hrunamenn byrjuðu leikinn á að verja svæði en skiptu svo yfir í hefðbundna maður á mann vörn. Skallagrímur byrjaði að spila maður á mann en fór svo í svæðisvörn um tíma og endaði leikinn í pressu.

Simun Kovac og Bryan Battle voru atkvæðamestir liðsmanna Skallagríms. Arnar  Smári Bjarnason lék vel fyrir lið sitt í fyrri hálfleik. Hann skoraði þriggja stiga körfur og sendi góðar sendingar. Marínó Þór Pálmason lék líka vel, bæði í fyrri og seinni hálfleik. Marínó er ágætur varnarmaður og fjölhæfur sóknarmaður. Hann er óhræddur að sækja á körfuna og þannig kom hann boltanum ósjaldan í körfuna í leiknum.

Hrunamenn urðu fyrir skakkaföllum í fyrsta leikhluta þegar fyrirliði þeirra, Eyþór Orri Árnason, meiddist og þurfti að fara af velli. Bróðir hans, hinn 16 ára gamli Óðinn Freyr, leysti hann af hólmi. Óðinn Freyr nýtti tækifæri sitt vel. Á 13 og hálfri mínútu á vellinum hitti hann öllum skotum sínum ofan í körfuna, þremur þristum og þremur tvistum. Svæðisvörn eins og sú sem Skallagrímur lék um tíma í seinni hálfleik er veisla fyrir leikmann eins og Óðin sem er bæði gríðarlega fljótur að losa boltann úr höndunum í skotinu sínu og mjög hittinn.

Í seinni hálfleik lifnaði yfir Clayton. Hann fór að hitta þriggja stiga skotum og í kjölfarið fann hann neistann og fór að spila félagana uppi eins og hann gerir oft svo vel. Kent Hanson náði sér hins vegar aldrei á strik við stigaskorun en hann lék engu að síður afar vel í seinni hálfleiknum, var t.a.m. með 7 stoðsendingar, 6 fráköst og gætti hættulegasta leikmanns Skallagríms, Bryan Battle. Karlo og Yngvi Freyr voru öflugir undir körfunni og Kristófer Tjörvi átti góðan leik. Kristófer hefur vaxið gríðarlega  sem leikmaður í vetur og er ekki lengur bara íþróttamaðurinn sem getur spilað vörn gegn kvikum bakvörðum andstæðinganna. Hann er farinn gera svo miklu fleira, hefur vaxið kjarkur og skilar liðinu framlagi sem það munar um á báðum endum vallarins. Kristófer Tjörvi er afreksmaður í golfíþróttinni. Hann hafði ekki stundað körfubolta með fullorðnum fyrr en hann fór að mæta á æfingar á Flúðum um miðja síðustu leiktíð. Þá kom hann við sögu í 8 leikjum Hrunamanna, spilaði 5 mínútur að meðaltali og meðalframlagið var 0,3. Nú spilar hann alla leiki, er á vellinum um það bil helming leiktímans og framlagið er komið upp í 7.

Kristófer og Clayton komu sér í villuvandræði um miðjan leikinn og Þorsteinn Þórarinsson sem leysti Simun af í miðherjastöðunni hjá Skallagrími var fljótur að krækja sér í villurnar 5 sem leikmönnum er skammtaður og þurfti að yfirgefa völlinn í 3. fjórðungi. Karlo hjá Hrunamönnum fór svo sömu leið í fjórða leikhluta.

Í lokafjórðungnum þéttu Hrunamenn raðirnar. Þeir stilltu aftur upp í svæðisvörn sem sat djúpt í teignum og ginntu þannig liðsmenn Skallagríms til þess að skjóta yfir vörnina og freistuðu þess um leið að langskot þeirra myndu geiga. Þetta gekk eftir. Þéttur varnarmúrinn hélt Skallagrímsmönnum frá því að komast aftur í boltann. Á meðan skoruðu Hrunamenn úr mörgum sóknum sinna. Fór þar fremstur í flokki Yngvi Freyr Óskarsson sem hafði stillt miðið rétt. Þegar Skallagrímur fór í örvæntingafulla svæðispressu fylgdu henni villudómar og Hrunamenn komust á vítalínuna í eins auðvelt færi til að skora og mögulegt er að fá í körfubolta. Hrunamenn unnu sinn annan útisigur í vetur og komust upp að hlið Skallagríms í töflunni með 18 stig. Lokatölur í Borgarnesi 86-98.

Tölfræði leiks

Önnur úrslit kvöldsins