Skagamenn í ÍA tóku í kvöld á móti Sindra frá Hornafirði.


Staða liðanna í deildinni fyrir leikinn var ólík, Sindramenn í harðri baráttu um heimavallaréttinn í komandi úrslitakeppni á meðan hlutskipti ÍA er ljóst þetta tímabilið en 10. sætið verður þeirra. Gengi liðanna í undanförnum leikjum endurspeglast glöggt í stöðu liðanna í deildinni en Sindramenn hafði fyrir leikinn unnið 6 leiki í röð á meðan ÍA hafði tapað 13 leikjum í röð. Til að gera langa sögu stutta þá hélt þessi saga áfram, sigurleikur í hnappagat Sindra á meðan ÍA tók við tapinu.

Leikurinn í kvöld var jafn fyrstu 5 mínútur fyrsta leikhluta en þá tóku leikmenn Sindra öll völd á vellinum, unnu fyrsta leikhlutann 15-26 og bættu um betur í öðrum leikhluta sem þeir unnu 10-30 og leiddu því í hálfleik 25-56 og ljóst að á brattann yrði að sækja fyrir heimamenn á meðan Sindramenn sáu fram á að sigla lignan sjó í seinni hálfleik. Sú varð raunin í seinni hálfleik og lauk leiknum með sigri gestanna, 56-120 og 7. sigurleikur Sindramanna í röð staðreynd auk þess sem þeir tryggðu sér 3. sæti deildarinnar og um leið heimavallaréttinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Stigahæstur hjá heimamönnum var Christopher Clover með 24 stig en hjá gestunum var stigahæsti maður vallarins Detrek Browning sem lauk leik með 36 stig, þar af 27 þeirra í fyrri hálfleik.

Bæði lið eiga nú einn leik eftir í deildarkeppninni.  Í lokaumferðinni heimsækir ÍA Fjölni í Grafarvoginn á meðan Sindri fær Skallagrím í heimsókn á Hornafjörð.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / HGH