Haukar tóku á móti Keflavík í Subway deild kvenna í gærkvöldi í Ólafssal. Fyrir leik voru heimakonur í fjórða sæti deildarinnar og Keflavík í því fimmta. Fjórða sætið gefur auðvitað þátttökurétt í úrslitakeppni deildarinnar, en munurinn á liðunum í töflunni var átta stig fyrir leik gærdagsins og því algerlega nauðsynlegt fyrir gestina að ná sigri til að halda vonum sínum um sæti í úrslitakeppninni á lífi.

Þær vonir kulnuðu hins vegar verulega í gær, þar sem Haukar unnu afar öruggan 18 stiga sigur, 76-58. Haukar byrjuðu leikinn talsvert betur og höfðu níu stiga forystu eftir fyrsta fjórðung, 23-14. Gestirnir náðu að laga stöðuna fyrir hálfleik og var forskot heimakvenna fjögur stig að loknum öðrum leikhluta, staðan í hálfleik 34-30 Haukum í vil.

Í þriðja leikhluta sigldu Hafnfirðingar hins vegar fram úr gestunum og höfðu að lokum öruggan sigur, 76-58.

Stigahæst í liði Hauka var Keira Robinson með 26 stig, auk 11 frákasta. Hjá gestunum skoraði Danielle Wallen 19 stig.

Með sigrinum nánast tryggja Haukar sér sæti í úrslitakeppni Subway deildarinnar, en nú munar tíu stigum á Haukum og Keflavík þegar fimm leikir eru eftir af deildakeppninni. Næsti leikur Hauka er 6. mars á útivelli gegn Grindavík, en Keflavík tekur á móti Fjölni miðvikudaginn 9. mars.