Í kvöld fór fram á Flúðum leikur Hrunamanna og ÍA í 1. deild karla, leikur sem búið er að fresta tvisvar sökum Covid-smita og ófærðar. Liðin hafa mæst tvisvar áður á leiktíðinni. Fyrst unnu Hrunamenn heimaleik með litlum mun en Skagamenn unnu öruggan sigur á Akranesi og er það eini sigur liðsins í vetur. Í kvöld höfðu Hreppamenn sigur en það mátti ekki miklu muna, lokatölur voru 93-92.

Þrátt fyrir takmörkuð gæði í leik liðinna og litla hjálp í formi hvatningar frá áhorfendum var leikurinn spennandi. Liðin skiptust 22 sinnum á forystu í leiknum, 7 sinnum var jafnt og úrslitin réðust í blálokin. Lokasókn Hrunamanna var laglega útfærð og sókn ÍA þar á undan var falleg og vel heppnuð.

Í síðustu umferð fengu Hrunamenn rassskellingu gegn Haukum. Sjálfsagt hefur hún sest á sálina hjá leikmönnunum, það virtist í það minnsta lítið sjálfstraust fylgja aðgerðum sumra leikmanna liðsins. Líkt og í leiknum gegn Haukum gátu Hrunamenn ekki teflt fram miðherjanum Karlo Lebo þar sem hann er meiddur. Það vantar mikið í lið Hrunamanna þegar Karlo er ekki með. Honum fylgir bæði barátta og kraftur. Yngvi Freyr Óskarsson lék í miðherjastöðunni nánast allan leikinn. Hann átti ágætan leik á sóknarhelmingnum en það var farið að draga verulega af honum undir lokin, enda ekki vanur að leika 39 mínútur í leik. Kristófer Tjörvi lék á köflum vel fyrir Hrunamenn, en erlendu leikmennirnir Kent og Clayton sem drógu vagninn og skoruðu mest allra hafa þó yfirleitt leikið betur á heimavelli en þeir gerðu í leiknum í kvöld.

Varnir liðanna voru hriplekar allan leikinn. Ef leikmaður reyndi að ráðast á körfuna tókst honum það. Ef liðin sýndu þolinmæði og léku boltanum hratt á milli sín í smástund fundu þau leikmann sem gat tekið opið skot á körfuna. Það þýðir þó ekki að öll skotin hafi ratað ofan í körfuna. Heildarskotnýting ÍA var 51% og Hrunamanna 45%. Reyndar var þriggja stiga nýting ÍA með ágætum, einkum Þórðar Freys Jónsson sem hitti 5 þristum, og Christopher Clover sem skoraði samtals 25 stig. Lið ÍA vantaði örlítið meiri gæði til að ná sigri. Leikmenn þess sóttu fá fráköst og þeir töpuðu boltanum stundum með ákaflega klaufalegum hætti. Ásamt Christopher og Þórði Frey var framlag Arons Elvars Dagssonar einna drýgst fyrir ÍA, hann sótti 8 fráköst og skoraði 16 stig. Bestur í liði ÍA var þó leikstjórnandinn Lucien Thomas Christofis sem sendi 8 stoðsendingar og skoraði 25 stig.

Skagamenn mæta Hetti 10. mars á Egilsstöðum og daginn eftir fara Hrunamenn í Borgarnes og leika gegn Skallagrími. 

Tölfræði leiks