Fjölnir lagði KR í VÍS bikarúrslitaleik drengjaflokks í Smáranum í dag, 111-89.

Fyrir leik

Í deildarkeppninni er Fjölnir í 2. sætinu með 22 stig á meðan að KR er í 7. sætinu með 8 stig. Síðast er liðin áttust við hafði KR þó nokkuð öruggan sigur á Fjölni, 100-81, þann 8. febrúar í Dalhúsum.

Gangur leiks

Fjölnisdrengir eru betri á upphafsmínútunum. Ná mest 11 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, en þegar fjórðungurinn er á enda er staðan 26-20 fyrir þeim. Svo má segja að allar flóðgáttir hafi opnast sóknarlega hjá Fjölni í öðrum leikhlutanum. Vinna fjórðunginn 38-22 og eru 22 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 64-42.

Stigahæstur fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Almar Orri Atlason með 16 stig á meðan að Hilmir Arnarson var kominn með 18 stig fyrir Fjölni.

Fjölnir gerir vel að verjast áhlaupi KR í upphafi seinni hálfleiksins og halda í fenginn hlut inn í fjórða leikhlutann, 89-66. Undir lokin sigla Fjölnisdrengir sigrinum í höfn. Vinna að lokum gífurlega öruggan 22 stiga sigur, 111-89.

Atkvæðamestir

Almar Orri Atlason var atkvæðamestur fyrir KR í leiknum með 32 stig, 12 fráköst og Lars Erik Bragason honum næstur með 12 stig og 5 fráköst.

Fyrir Fjölni var Daníel Ágúst Halldórsson atkvæðamnestur með laglega þrennu 11 stig, 13 fráköst, 17 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá bættu Hilmir Arnarson við 27 stigum, 4 fráköstum og Brynjar Kári Gunnarsson 11 stigum og 11 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)