Fjölnir lagði Grindavík í dag í Subway deild kvenna, 86-88. Eftir leikinn er Fjölnir í efsta sæti deildarinnar með 32 stig á meðan að Grindavík er í 6. sætinu með 12 stig.

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð jafn í upphafi. Lítið bar í milli liðanna í fyrsta leikhlutanum, en þegar hann var á enda var allt jafnt, 23-23. Undir lok fyrri hálfleiksins ná gestirnir úr Grafarvogi þó að vera skrefinu á undan og leiða með 15 stigum þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 39-54.

Leikurinn er svo aftur í miklu jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins. Fjölnir nær ekki að skora eins mikið í þriðja leikhlutanum og nær Grindavík að koma sér aftur inn í leikinn fyrir lok fjórðungsins, en fyrir þann fjórða munar þó enn 8 stigum á liðunum, 63-71. Í lokaleikhlutanum nær Grindavík að halda áhlaupi sínu áfram og gera þetta að alvöru leik undir lokin. Fjölnir nær þó að lokum að halda út og vinna tveggja stiga sigur, 86-88.

Atkvæðamestar

Fyrir Grindavík var Robbi Ryan atkvæðamest í leiknum með 31 stig og 7 fráköst. Þá bætti Hekla Eik Nökkvadóttir við 7 stigum og 13 stoðsendingum.

Aliyah Mazyck var best í liði Fjölnis í leiknum með 44 stig, 11 fráköst, 5 stolna bolta og henni næst var Sanja Orozovic með 21 stig og 13 fráköst.

Hvað svo?

Leikurinn var sá síðasti hjá Grindavík í deildinni í vetur, en Fjölnir á ennþá einn leik eftir, gegn Íslandsmeisturum Vals komandi miðvikudag 30. mars.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)