Fjölnir lagði Njarðvík í Dalhúsum í kvöld í Subway deild kvenna, 80-76. Eftir leikinn er Fjölnir í efsta sæti deildarinnar með 28 stig á meðan að Njarðvík er sæti neðar með 26 stig.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins höfðu liðin mæst þrisvar áður í vetur og hafði Njarðvík haft sigur í öll skiptin. Með 10 stigum í október, 7 stigum í nóvember og 27 stigum nú í febrúar.

Gangur leiks

Gestirnir úr Njarðvík byrja leik kvöldsins betur. Ná að vera yfir lungann úr fyrsta leikhlutanum, en heimakonur ná að vinna það niður, jafna og komast yfir á síðustu mínútum fyrsta fjórðungsins. Munurinn eitt stig fyrir annan leikhluta, 17-16. Leikurinn er svo í járnum undir lok fyrri hálfleiksins þar sem að liðin skiptast á forystunni í þó nokkur skipti. Munurinn enn aðeins eitt stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 41-42.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Aliyah Mazyck með 23 stig á meðan að fyrir Njarðvík var það Aliyah Collier sem dró vagninn með 20 stigum.

Leikurinn var svo áfram nokkuð jafn og spennandi í upphafi seinni hálfleiksins. Um miðbygg fjórðungsins fékk lykilleikmaður Fjölnis Sanja Orozovic dæmda á sig tæknivillu og í kjölfarið útilokun frá leiknum, en hún hafði fyrr í leiknum fengið dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Fjölniskonur virðast þó ekkert bogna við þetta brotthvarf hennar úr leiknum og ná að vera skrefinu á undan út þriðja fjórðuninn. Staðan 60-56 fyrir þann fjórða. Í lokaleikhlutanum skiptast liðin svo á snöggum áhlaupum, þar sem munurinn er otast ein karfa eða minna. Undir lokin eru það stórar körfur frá Iva Bosnjak og Emmu Sóldísi Svan Hjördísardóttur sem innsigla gífurlega sterkan sigur Fjölnis, 80-76.

Tölfræðin lýgur ekki

Fjölniskonur voru duglegri að koma sér á línuna í leiknum. Fá 34 víti á móti aðeins 14 vítum Njarðvíkur.

Atkvæðamestar

Aliyah Mazyck var atkvæðamest í liði Fjölnis í kvöld með 36 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og Dagný Lísa Davíðsdóttir bætti við 12 stigum og 8 fráköstum.

Fyrir gestina úr Njarðvík var Aliyah Collier atkvæðamest með tröllatvennu, 35 stig og 22 fráköst. Þá bætti Lavína Joao Gomes De Silva við 9 stigum, 15 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir slétta viku, miðvikudag 9. mars. Njarðvík fær Grindavík í heimsókn í Ljónagryfjuna á meðan að Fjölnir heimsækir Keflavík í Blue Höllina.

Tölfræði leiks