Fjölnir tryggði sér deildarmeistaratitil Subway deildar kvenna í kvöld, en titillinn er sá fyrsti í sögu félagsins. Titillin kom þó í skugga 11 stiga taps liðsins fyrir Val, sem endaði í öðru sæti deildarinnar.

Fyrir leik

Í þremur leikjum fram að þessum hafði Fjölnir haft sigur í tveimur, en Valur einum. Þar sem aðeins tveimur stigum munaði á þeim í 1. og 2. sæti deildarinnar, hefði Valur þurft að vinna með meira en 25 stigum í kvöld til þess að jafna Fjölni að stigum, sigrum og ná innbyrðisstöðu með stigum.

Gangur leiks

Fjölniskonur byrja leikinn mun betur. Setja fyrstu 7 stig leiksins, en Valskonur eru snöggar að ná áttum og leiða með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta, 17-19. Valur nær mest átta stiga forystu undir lok fyrri hálfleiksins, en Fjölnir gerir vel að missa þær ekki lengra frá sér. Munurinn aðeins sex stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-40 og ljóst að ætli Valur sér deildarmeistaratitilinn þurfa þær að vinna seinni hálfleikinn með 19 stigum.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Aliyah Mazyck með 15 stig á meðan að Dagbjört Dögg Karlsdóttir var komin með 16 stig fyrir Val.

Heimakonur í Fjölni ná að vinna niður forystu Vals á upphafsmínútum seinni hálfleiksins. Leikurinn er svo í nokkru jafnvægi út þriðja leikhlutann, sem endar með þrist frá leikmanni Vals Ameryst Alston og forystu Vals í 3 stigum, 57-60. Valur nær svo að láta kné fylgja kviði í upphafi fjórða leikhlutans og koma forystu sinni í tæp 10 stig. Komast bara lítið sem ekkert lengra með það og líta aldrei út fyrir að vera neitt sérstaklega líklegar til að vinna með þessum 25 stigum sem þær þurftu til að ná innbyrðisstöðunni gegn Fjölni og deildarmeistaratitlinum. Niðurstaðan að lokum 10 stiga sigur Vals, 76-86.

Atkvæðamestar

Fyrir Fjölni var Aliyah Mazyck atkvæðamest með 40 stig, 14 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá bætti Sanja Orozovic við 11 stigum og 8 fráköstum.

Fyrir Val var það Ásta Júlía Grímsdóttir sem dró vagninn með 12 stigum og 16 fráköstum. Henni næst var Dabjört Dögg með 23 stig og Ameryst Alston með 30 stig.

Hvað svo?

Við taka undanúrslit hjá báðum liðum. Þar sem að Fjölnir mætir Njarðvík og Valur mætir Haukum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)