Íslandsmeistarar Vals lögðu Njarðvík í kvöld í Subway deild kvenna, 76-66. Eftir leikinn er Valur í 2. sæti deildarinnar með 28 stig á meðan að Njarðvík er í 4. sætinu með 26 stig.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins höfðu liðin í þrígang mæst áður í deildinni í vetur. Valur unnið tvo leiki og Njarðvík einn. Þann síðasta vann Valur 2. febrúar með 9 stigum í Ljónagryfjunni, 57-66.

Í leikmannahóp Vals vantaði Ástu Júlíu Grímsdóttur. Munar um minna fyrir Íslandsmeistarana, en Ásta hefur verið með betri leikmönnum deildarinnar það sem af er tímabili, skilað 13 stigum og 12 fráköstum að meðaltali í leik.

Gangur leiks

Leikurinn er nokkuð jafn á upphafsmínútunum. Heimakonur í Val ná þó að komast aðeins á undan undir lok fyrsta leikhlutans, 21-16. Valskonur gera svo vel í að halda í þá forystu út fyrri hálfleikinn, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru þær 4 stigum yfir, 38-34.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Sara Líf Boama með 10 stig á meðan að fyrir Njarðvík var Aliyah Collier með 11 stig.

Leikurinn er svo áfram jafn og spennandi í upphafi seinni hálfleiksins, en með þremur þristum frá Eydísi Evu Þórisdóttur og einum frá Dagbjörtu Dögg Karlsdóttur undir lok þriðja leikhlutans ná Íslandsmeistararnir aðeins að skilja sig frá gestunum. Staðan fyrir lokaleikhlutann, 60-53. Í upphafi fjórða leikhlutans láta heimakonur svo kné fylgja kviði og koma forystu sinni í 13 stig. Njarðvík reyndu allt hvað þær gátu til þess að klóra sig til baka inn í leikinn, en allt kom fyrir ekki. Íslandsmeistararnir sigruðu að lokum með 10 stigum, 76-66.

Tölfræðin lýgur ekki

Njarðvík skaut ágætlega fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum, 35%, en ekki næstum því jafn vel og Valur sem setti niður 11 þrista úr 25 tilraunum, eða á 44% nýtingu.

Atkvæðamestar

Aliyah Collier var atkvðamest fyrir Njarðvík í leiknum með 24 stig, 8 fráköst og Diane Diéné Oumou bætti við 20 stigum og 8 fráköstum.

Fyrir heimakonur var Eydís Eva Þórisdóttir atkvæðamest með 15 stig og 3 fráköst og Dagbjört Dögg Karlsdóttir henni næst með 13 stig og 3 fráköst. Samanlagt voru þær með einstaka nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum, 7 af 10, eða 70%.

Hvað svo?

Næst á dagskrá hjá Njarðvík eru undanúrslit VÍS bikarkeppninnar, en þar mæta þær Haukum komandi fimmtudag 17. mars. Valur á hinsvegar ekki leik í deildinni fyrr en eftir bikarvikuna, gegn Keflavík í Keflavík þann 23. mars.

Tölfræði leiks